Meiðsli Magnúsar ekki eins alvarleg og talin voru
Bakvörðurinn Magnús Þór Gunnarsson hefur verið fjarri góðu gamni í liði Njarðvíkur í síðustu tveimur leikjum liðsins sökum meiðsla. Óttast var að Magnús hefði slitið liðband og yrði þess vegna ekki meira með á tímabilinu en Magnús fór í speglun á föstudag þar sem annað kom á daginn.
Samkvæmt spegluninni var liðband Magnúsar í lagi og sagðist hann í samtali við Karfan.is eiga von á því að koma inn í leik tvö í fyrstu umferð úrslitakeppninnar þegar Njarðvík tekur á móti Stjörnunni í 8-liða úrslitum. Magnús verður því ekki með í fyrsta leik liðanna þegar þau mætast í Garðabæ í næstu viku.
Magnús er með 17,4 stig að meðaltali í leik hjá Njarðvíkingum sem og 4,4 fráköst og 3,8 stoðsendingar.