Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Meiðsli Guðmundar ekki alvarleg
Föstudagur 28. september 2012 kl. 08:00

Meiðsli Guðmundar ekki alvarleg

-Fer líklega í þjálfun eftir að ferlinum lýkur

Meiðsli framherjans Guðmundar Steinarssonar eru ekki eins alvarleg og ætlað var í fyrstu en hann meiddist á hné í leiknum gegn Breiðablik í síðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. „Þetta var slæmt högg og það kom mikil bólga við hnéð. Ég var heppinn að vera ekki með löppina á jörðinni þegar höggið kom, þá hefði líklega farið verr,“ segir Guðmundur en menn óttuðust hið versta á tímabili. Keflvíkingar eiga einn leik eftir í Pepsi-deild karla en sá leikur er gegn KR á laugardag. Guðmundur stefnir á það að spila þann leik. „Ég ætla á æfingu á föstudag og reikna með því að geta spilað á laugardaginn. Maður finnur hnéð nánast verða betra með hverri klukkustund.“

Töluvert hefur verið rætt um að tímabilið sem er að renna sitt skeið verði það síðasta í boltanum hjá Guðmundi, en hann vill lítið gefa út um það að svo stöddu. „Ég ætla ekki að segja af eða á strax. Ef ég tek eitt ár enn þá verður það hérna heima í Keflavík, þar mun ég klára ferilinn,“ en Guðmundur hefur bæði leikið flesta leiki allra Keflvíkinga og skorað flest mörk allra. Hann segir einnig að ýmis spennandi verkefni séu á borðinu en Guðmundur er að ljúka námi næsta vor. Guðmundur hefur verið að taka námskeið í þjálfun samhliða fótboltanum og hann ætlar sér að vera áfram í heimi íþróttanna. „Það er klárt mál að maður verður í kringum boltann. Í hvaða formi sem það verður,“ enda segist Guðmundur vera það mikill íþróttaunnandi að það verði erfitt fyrir hann að slíta sig frá þeim geira.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024