McShane hetja Grindvíkinga í grannaslagnum
Grindavík hafði ævintýralegan 3-2 sigur á grönnum sínum úr Njarðvík í kvöld og eru fyrir vikið áfram á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu með 13 stig eftir fimm leiki.
„Ég bara trúði því ekki að Andri Steinn hefði gefið boltann á mig, ég hélt að hann myndi skjóta sjálfur, ekki spurning, því hann er sóknarmaður,” sagði Paul McShane sigurreifur í leikslok. Paul gerði tvö mörk í leiknum og hefur verið að finna sig vel ásamt félaga sínum Scott Ramsay.
„Þetta var mikil barátta í kvöld en við spiluðum samt ekki nægilega vel. Njarðvíkingar mættu baráttuglaðir í leikinn en ég er ánægður með að hafa náð í þrjú stig. Þetta hefur gengið vel hjá okkur að undanförnu en það er þungt prógramm framundan,” sagði Paul en Grindavík mætir ÍR í VISA bikarnum næsta þriðjudag og svo Þór á Akureyri á föstudag.
Aðspurður um muninn á Landsbankadeildinni og 1. deildinni svaraði Paul: „Ég tel að munurinn sé ekki svo mikill. Það eru 5-7 lið hérna í 1. deildinni sem geta spilað í efstu deild því þegar liðin koma upp eftir sumarið þá bæta þau við sig leikmönnum,” sagði Paul.
Scott Ramsay lék við hvern sinn fingur í kvöld og lék varnarmenn Njarðvíkinga oft ansi illa en hann gerði fyrsta mark Grindavíkur í kvöld á 21. mínútu og Paul McShane bætti við öðru markinu á 30. mínútu. Sævar Eyjólfsson minnkaði muninn fyrir Njarðvíkinga í 2-1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Grindvíkingar voru mun sterkari í upphafi síðari hálfleiks en gerðu reginmistök með því að slappa af eftir því sem leið á hálfleikinn. Aron Smárason kom svo inn á sem varamaður í Njarðvíkurliðinu og jafnaði metin í 2-2 með skallamarki á 78. mínútu.
Paul McShane gerði svo út um leikinn á 90. mínútu eftir góða sendingu inni teignum frá Andra Steini Birgissyni og lokatölur leiksins því 3-2 Grindavík í vil.