Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Matthías kláraði Keflavík
Sunnudagur 20. maí 2007 kl. 22:42

Matthías kláraði Keflavík

Íslandsmeistarar FH hirtu stigin þrjú sem í boði voru á Keflavíkurvelli í kvöld þegar þeir lögðu heimamenn 2-1 í Landsbankadeild karla. Arnar Gunnlaugsson kom FH í 1-0 en Símun Samuelsen jafnaði metin í 1-1, það var svo Matthías Guðmundsson sem tryggði FH-ingum 2-1 sigur og því eru Íslandsmeistararnir enn á toppi Landsbankadeildarinnar og nú með sex stig eftir tvær umferðir.

 

Boðið var upp á hin ýmsu veðurafbrigið á Keflavíkurvelli í kvöld, rigningu, él, rok og sól og í miðjum veðurhrærigrautnum var flautað til leiks. Keflvíkingar komust í skyndisókn strax á 1. mínútu leiksins. Baldur Sigurðsson gaf stungusendingu á Símun Samuelsen sem virtist vera að brjótast í gegn en Guðmundur Sævarsson felldi Símun og fékk fyrir vikið að líta gula spjaldið. Nokkuð vafasamur dómur þar sem Símun hefði sloppið inn einn á móti markverði og því vildu margir meina að Guðmundur hefði átt að fá reisupassann.

 

Keflvíkingar voru mun sterkara liðið í upphafi leiks en FH komust hægt og bítandi inn í leikinn. Keflvíkingar áttu þó hættulegri færi til að byrja með og á 20. mínútu kom sending af hægri kanti fyrir FH markið þar sem Þórarinn Kristjánsson skallaði boltann rétt framhjá. Aðeins tveimur mínútum síðar sendi Símun Samuelsen boltann fyrir markið frá vinstri kanti, Marco Kotilainen tók við boltanum í ákjósanlegu færi en Marco brást bogalistin og fór hann þar illa með dauðafæri.

 

Tryggvi Guðmundsson var algerlega tekinn úr umferð í fyrri hálfleik af Guðjóni Árna Antoníussyni og því sóttu FH-ingar meira upp hægri kantinn þar sem Matthías Guðmundsson var nokkuð sprækur. Flestar FH sóknir enduðu þó hjá Nicolai Jörgensen sem stóð eins og klettur í Keflavíkurvörninni.

 

Á 40. mínútu kom góð sending fyrir FH markið þar sem Þórarinn Kristjánsson tók við boltanum. Þórarinn skaut að marki en boltinn fór beint á Daða Lárusson sem var vel staðsettur í markinu. Staðan að loknum fyrri hálfleik var því 0-0 og Keflvíkingar sterkari aðilinn framan af leik en voru að fara illa með færin sín.

 

Með stjörnum prýdda sóknarlínu þurfa FH-ingar ekki mikinn tíma til að athafna sig í sókninni og það sannaðist þegar Tryggvi Guðmundsson sendi boltann fyrir Keflavíkurmarkið á 56. mínútu. Arnar Gunnlaugsson tók við boltanum og sendi hann viðstöðulaust í netið og kom FH í 1-0. Markið fékk nokkuð á Keflvíkinga og í nokkrar mínútur voru FH allsráðandi á vellinum.

 

Heimamenn jöfnuðu sig fljótlega og aðeins átta mínútum síðar jöfnuðu Keflvíkingar metin. Jónas Guðni Sævarsson átti þá fína sendingu í teiginn á Símun Samuelsen. Símun sneri af sér varnarmann FH og sendi knöttinn fram hjá Daða í markinu, Kelfavík 1-1 FH og Símun búinn að skora sitt annað deildarmark. Nokkuð kapp hljóp í Keflvíkinga eftir markið og tóku þeir Jónas Guðni og Baldur öll völd á miðjunni.

 

Keflvíkingar fengu nokkur góð marktækifæri þar sem þeir hefðu átt að senda knöttinn í netið en allt kom fyrir ekki og það voru Íslandsmeistararnir sem juku muninn í 2-1 á 80. mínútu. Daði Lárusson henti boltanum út að miðju á Tryggva Guðmundsson. Tryggvi framlengdi boltann inn á miðjuna á Matthías sem leitaði eftir samherja en fann ekki. Fyrir vikið lét Matthías skotið ríða af og boltinn söng í netinu og staðan 2-1 FH í vil.

 

Tryggvi Guðmundsson átti því drjúgan þátt í báðum FH mörkunum eftir dapran fyrri hálfleik og hafði því ástæðu til að gleðjast en hann var orðin nokkuð pirraður í fyrri hálfleik. Keflvíkingum tókst ekki að jafna metin þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og því hirtu FH öll stigin sem í boði voru. Keflvíkingar fóru oft illa að ráði sínu í sókninni í kvöld og hefðu hæglega getað sett inn þrjú mörk en raunin varð önnur og því tap í fyrsta heimaleik staðreynd.

 

FH er sem fyrr á toppi deildarinnar og nú með 6 stig en Keflvíkingar eru í 4. sæti með 3 stig. Næsti leikur Keflvíkinga er gegn Breiðablik á útivelli þann 24. maí kl. 19:15.

 

Byrjunarliðin í kvöld:

 

Keflavík:

Ómar Jóhannsson, markvörður, Guðjón Árni Antoníusson, Jónas Guðni Sævarsson, Nicolai Jörgensen, Guðmundur Steinarsson, Símun Samuelsen, Baldur Sigurðsson, Marco Kotilainen, Þórarinn Kristjánsson, Hallgrímur Jónasson og Branislav Milicevic.

 

FH:

Daði Lárusson, markvörður, Tommy Nielsen, Freyr Bjarnason, Bjarki Gunnlaugsson, Davíð Þór Viðarsson, Tryggvi Guðmundsson, Sigurvin Ólafsson, Arnar Gunnlaugsson, Guðmundur Sævarsson, Matthías Guðmundsson og Sverrir Garðarsson.

 

Mörk:

56. mínúta – Arnar Gunnlaugsson 0-1

64. mínúta – Símun Samuelsen 1-1

80. mínúta – Matthías Guðmundsson 1-2

 

Staðan í deildinni

 

VF-myndir/ Þorgils Jónsson – [email protected]

Texti: [email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024