Íþróttir

Massi fær andlitslyftingu
Massa-menn tóku til hendinni og unnu hörðum höndum að breytingum.
Fimmtudagur 21. ágúst 2014 kl. 09:22

Massi fær andlitslyftingu

Halda stærsta lyftingamót Íslandssögunnar um helgina

Langþráður draumur lyftingakappa í Njarðvík hefur loksins ræst, en lyftingasalur Massa hefur fengið tímabæra andlitslyftingu. Gólfefnið sem hefur verið á neðri hæð íþróttahússins í Njarðvík og var upphaflega hugsað sem fimleikagólf, hefur verið endurnýjað. Nokkrir vaskir Massa-liðar tóku sig til og fjarlægðu gólfefnið sem er orðið tæplega 40 ára gamalt og lögðu sérstakt undirlag sem sérhannað er fyrir lyftingar og líkamsrækt. Um 170 vinnustundir eru að baki og er mál manna að salurinn sé bjartari og rýmri en nokkru sinni fyrr. Meðfram breytingum á salnum var minni sal, þar sem ljósabekkir hafa verið staðsettir, breytt þannig að þar verður kraftlyftingaaðstaða fyrir þá sem æfa undir merkjum Massa. Jafnframt var ráðist í það að standsetja tæki og tól eins sem ísbaði hefur verið komið fyrir hjá heitu pottunum, þannig að aðstaðan er nú eins og best verður á kosið til líkamsræktar. Gamla gólfið var nokkuð fyrirferðarmikið en það fyllti 20 feta gám á vörubíl þegar uppi var staðið. Reykjanesbær kostaði nýja gólfefnið en Massa-menn lögðu fram vinnuframlag.

Heljarmenni reyna við heimsmet

Til stendur að halda stærsta lyftingamót sem haldið hefur verið á Íslandi dagana 22.-23. ágúst n.k. Um er að ræða Norðurlandamótið þar sem um 80 manns mæta til keppni í sal íþróttamiðstöðvar Njarðvíkur. Meðal keppenda eru nokkrir af sterkustu kraftlyftingamönnum í heimi og býst Sturla Ólafsson, yfirþjálfari og formaður kraftlyftingadeildar U.M.F.N, við því að heimsmet muni jafnvel falla á mótinu. Svíinn Fredrik Svensson stefnir t.a.m. á heimsmet í bekkpressu, 400.5 kg. Massa-fólk hefur góða reynslu af því að halda mót og er sífellt að setja markið hærra hvað það varðar. Massi á tvo keppendur á mótinu en það eru þeir Sindri Freyr Arnarsson og Hörður Birkisson sem keppa fyrir Íslands hönd. „Sindra fengum við til baka í kraftlyftingarnar eftir að hann villtist inn í ólympískar lyftingar um stund. Hann er upp á sitt besta og er takmark hans að taka 600 kg í samanlögðu, sem verður að teljast gott fyrir 22 ára 74 kg ungling. Sindri ætlar sér stóra hluti í kraftlyftingaheiminum og hefur alla burði til þess að svo verði, skrokkinn, hausinn og skapið,“ segir Sturla. „Hörður eða Jepplingurinn eins og hann er kallaður innan herbúða Massa, er harður nagli og einn duglegasti iðkandi Massa þrátt fyrir að vera orðinn 56 ára. Hörður er enn að bæta sig og gefur yngri mönnum ekkert eftir og skilur hann illa þetta væl í þeim ungu um tímaleysi og meiðsl. Þetta er fyrsta alþjóðamót Harðar en klárlega ekki það síðasta þar sem Jepplingurinn virðist vera óstöðvandi,“ bætir Stulli „Trukkur“ við.

Public deli
Public deli

Innan raða massa má finna fólk alls staðar af Suðurnesjum enda er um að ræða einu kraftlyftingadeildina á svæðinu. Eins og staðan er í dag þá eru rúmlega 30 iðkendur sem eru virkir innar raða Massa en fjöldinn allur af fólki er skráður í félagið. „Þetta er bara eins og að vera í skátunum, eitt sinn Massi alltaf Massi,“ segir Stulli. Á landsvísu er það þokkalegur fjöldi en Sturla vonast til þess að vekja áhuga fólks á kraftlyftingum og fá fleiri inn í hópinn. „Það var skortur á aðstöðu en nú er það liðinn tími.“

Sturla Ólafsson  er virkilega sáttur við nýja gólfefnið.