Íþróttir

  • Massafólki hrósað fyrir mótsumgjörð á EM í bekkpressu
  • Massafólki hrósað fyrir mótsumgjörð á EM í bekkpressu
Mánudagur 22. ágúst 2016 kl. 14:59

Massafólki hrósað fyrir mótsumgjörð á EM í bekkpressu

Kraftlyftingafólkið í Massa í Reykjanesbæ fær hrós frá fulltrúa evrópska kraftlyftingasambandsins og varaforseta alþjóða kraftlyftingasambandsins vegna Evrópumeistaramótsins í bekkpressu, sem fram fór í íþróttahúsinu í Njarðvík um helgina.

Í lokahófinu talaði fulltrúinn um það að nýir staðlar hefðu verið settir í móttsumgjörðinni sem er ekki lítið fyrir þá sem til þekkja í alþjóða kraflyftingaumhverfinu.

„Keppendur, þjálfarar, dómarar og embættisfólk víðsvegar frá Evrópu hrósaði Massafólki fyrir vel unnin störf og frábært mót í alla staði,“ skrifar Sturla Ólafsson á fésbókarsíðu Massa þar sem hann kemur þökkum til heimamanna eftir að kraftlyftingamótinu lauk.

Sturla segir að umstangið í kringum mótið hafi verið mikið og mikið hafi mætt á mörgum.

„Það væri til að æra óstöðugan að ætla að rita nöfn allra sem mig langar að þakka persónulega fyrir sína vinnu og tíma. Þar mætti helst nefna fjölskylduna sem hefur svo sannarlega fengið að finna fyrir umstanginu og verið til staðar þegar á reyndi, stórkostlegum hóp Massafólks, Fulltrúum Kraftlyftingasambandsins, stjórn UMFN, Reykjanesbær, starfsfólk íþróttahúss Njarðvíkur og fjölmörgum fyrirtækjum og einstaklingum sem lögðu hönd á plóg til að leysa hvert það verkefni sem að okkur var rétt. Takk til allra sem að komu með einum eða öðrum hætti þið vitið hver þið eruð,“ segir Sturla.

Íslensku keppendurnir slógu ekki slöku við á mótinu Kara Gautadóttir tryggði sér Evrópumeistaratitil í -57 kg unglingaflokki kvenna með 85 kg lyftu og varð jafnfram þriðja stigahæst yfir konur í unglingaflokkum. Í opnum flokki keppti Fanney Hauksdóttir sem einnig tryggði sér Evrópumeistaratitil með miklum yfirburðum, annað árið í röð. Fanney sem lyfti  155 kg í -63 kg flokki, bætti eigið Íslandsmet um 2,5 kg og setti um leið Norðurlandamet og virtist eiga nokkur kg inni sem verða tekin út seinna.

Þyngstu lyftu mótsinns 357,5 kg tók hins vegar Finninn Kenneth Sandvik en með henni tryggði hann sér sigurinn í +120 kg flokki. Nánar má lesa um mótið hér.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024