Marteini tókst hið ómögulega
Það kom að því að Sandgerðingurinn Grétar Ólafur Hjartarson þyrfti að lúta í lægra haldi, hann mætti Vogaídýfunni Marteini Ægissyni og fóru leikar 7-8 fyrir Marteini. Grétar er samt ansi líklegur til að vera búinn að tryggja sig í undanúrslitin en fjórir efstu í tippleik Víkurfrétta munu mætast í næstsíðustu umferðinni og sigurvegararnir svo í hreinum úrslitaleik um ferð á úrslitaleikinn í FA cup, enska bikarnum á Wembley 24. maí. Staðan í heildarleiknum er svona núna:
Grétar Ólafur Hjartarson, 46 leikir réttir, Hámundur Örn Helgason, 34 leikir réttir, Jónas Þórhallsson, 26 leikir réttir og Petra Ruth Rúnarsdóttir, 17 leikir réttir
Það voru bara sex tipparar, enginn frá Íslandi, sem náðu öllum þrettán leikjunum réttum og fékk hver um sig rúmar 30 milljónir í sinn hlut. 222 tipparar, þar af sex Íslendingar náðu tólf réttum og fékk hver rúmar 156 þúsund krónur.
Áskorandi vikunnar er Keflvíkingurinn Gísli Hlynur Jóhannsson. Hann býr í Njarðvík en er gallharður Keflvíkingur, Leeds-ari, var meira í handbolta en fótbolta sem leikmaður en sneri sér svo að dómgæslu í báðum greinum. Hann dæmdi í efstu deild karla í knattspyrnu og dæmdi erlendis á árunum 1996 til 2006, þá dæmdi Gísli í handbolta í 34 ár, hætti fyrir sjö árum en hefur verið í eftirliti með leikjum síðan þá. Það var einmitt í knattspyrnudómgæslu sem leiðir Gísla og Marteins lágu fyrst saman.
„Ég hef fylgst með þessum tippdálki í allan vetur og hef haft mikið gaman af. Mér fannst athyglisvert að lesa síðasta dálk þar sem Marteinn var að gorta sig af frammistöðu sinni á móti Grétari í knattspyrnuleik og kenndi dómgæslu um hörmungar sínar og sinna manna í Þrótti. Það rétta er að Gulli Hreins var með sitt á hreinu og dómgæslan í þessum leik var upp á tíu. Ég var farinn að vorkenna Marteini í þessari vonlausu baráttu sinni gegn Grétari og dæmdi, eftir á að hyggja, of mikið á Grétar. Ef ég hefði ekki kennt svona í brjósti um Martein, hefði Grétar sennilega komist í tveggja stafa tölu í markaskorun í þessum leik.
Annars er ég gallharður stuðningsmaður Leeds og hef verið frá 1973. Ég á tvö börn, ól þau að sjálfsögðu upp á réttan máta og við áttum góða stund saman um daginn á Elland Road, heimavelli Leeds. Okkar menn eru í fjórða sæti eins og sakir standa, ég vona að þeir muni tryggja sig beint upp með því að lenda í öðrum af tveimur efstu sætunum – annars klárum við þetta bara í umspilinu,“ sagði Gísli.
Marteinn var nývaknaður þegar blaðamaður náði tali af honum. „Þetta er búið að vera rosalegt, stanslaus sigurhátíð síðan á laugardagskvöld og má segja að ég sé búinn að vera eins og í guðatölu í Vogum síðan þá. Ég hef varla getað sofið, svo mikið hefur stuðið verið en bæði var skotið upp miklu magni af flugeldum og við fengum fullt af listamönnum til að heiðra mig og þennan árangur, að hafa unnið Grétar. Núna þarf ég að koma mér niður á jörðina sem fyrst og einbeita mér að rimmunni gegn Gísla. Ha, segist hann hafa dæmt leikinn forðum á móti Grétari? Ég vísa þessum lýsingum hans á leiknum, algerlega til föðurhúsanna! Fyrst hann talar svona vitleysu ætla ég ekki að sýna honum neina miskunn á laugardaginn og stefni á að rúlla honum all rækilega upp. Ég man nú eftir þegar Gísli dæmdi handboltaleik hjá okkur í Þrótti Vogum árið 2006 á móti ÍR í bikarnum. Við töpuðum leiknum 15-38, Gísli sleppti u.þ.b. tuttugu línum á ÍR sem urðu að lokum bikarmeistarar með Bjarna Fritz, Ingimund og fleiri kempur. Nokkuð ljóst að ef Gísli hefði dæmt allar þessar línur, hefði Þróttur Vogum hugsanlega orðið bikarmeistari árið 2006,“ sagði nýi tippmeistarinn að lokum.