Marko til Svíþjóðar að æfa – Svíar með ranghugmyndir
Marko Valdimar Stefánsson, leikmaður Grindavíkur, er farinn til Svíþjóðar þar sem hann mun æfa og spila tvo æfingaleki með Oskarshamns AIK. Grindavik.is segir frá. Oskarshamns leikur í þriðju deildinni en mikil spenna er í herbúðum félagsins fyrir komu Marko. Undanfarna sex daga hefur birst ein frétt á dag á heimasíðu liðsins undir nafninu ,,bomban" þar sem gefnar eru vísbendingar um leikmanninn sem er að koma á reynslu.
Sænski vefmiðillinn Barometern hefur núna greint frá því að leikmaðurinn sem um ræðir er Marko en á síðunni er viðtal við Milan Stefán Jankovic faðir leikmannsins og aðstoðarþjálfara hjá Grindavík.
Ein af vísbendingunum á heimasíðu Oskarshamns var sú að faðir Marko hefði leikið með Emilio Butragueño og Hugo Sánchez hjá Real Madrid á sínum tíma. Það er þó ekki rétt en félagið ruglaðist á Milan Stefán Jankovic og öðrum Milan Jankovic frá Júgóslavíu sem lék með Real 1987-1988.
Mynd: Marko ásamt föður sínum, Milan Stefán, sem svíarnir héldu að hefði spilað með Real Madrid.