Marko og Þórkatla leikmenn ársins
Lokahóf knattspyrnudeildar UMFG var haldið með pompi og pragt á laugardagskvöld í íþróttahúsinu sem búið var að breyta í fínasta skemmtistað. Hápunktur kvöldsins var valið á leikmönnum ársins sem að þessu sinni kom í hlut Markos Valdimars Stefánssonar og Þórkötlu Albertsdóttur.
Alex Freyr Hilmarsson og Rebekka Þórisdóttir voru valin efnilegustu leikmennirnir, Daníel Leó Grétarsson besti leikmaður 2. flokks og Nemanja Latimovic sýndi mestu framfarirnar í 2. flokki.
Kristín Pálsdóttir stýrði lokahófinu af sinni alkunnu snilld og brá sér í ýmis hlutverk. Sigurður Ingvason smiður og lífskúnstner flutti ljómandi skemmtilegar frumsamdar vísur. Ingibjörg Guðmundsdóttir söngkona sem sló í gegn á sínum tíma með BG og Ingibjörgu steig fram á svið í fyrsta skipti í nokkur ár og tók þrjú lög við feikna undirtektir. Síðan var stiginn dans fram á nótt með Helga Björns og Reiðmönnum vindanna.