Markmiðið er að komast í „March Madness“
-segir Jón Axel sem leikur með Davidson háskólanum
Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson spilar með Davidson í efstu deild bandaríska háskólakörfuboltans, en þetta er hans fyrsta ár í mekka körfuboltans. Besti leikmaður NBA deildarinnar, Stephen Curry, spilaði einnig með Davidson á sínum háskólaárum. Jón Axel spilar stöðu leikstjórnanda eða skotbakvarðar og hefur strax á undirbúningstímabilinu náð að heilla þjálfara sinn, Bob McKillop, en hann sagði Jón Axel vera enn betri leikmann en þeir bjuggust við, í viðtali við Karfan.is á dögunum. Víkurfréttir spurðu Jón Axel út í komandi tímabil og lífið í Bandaríkjunum.
Á hvað var lögð áhersla á undirbúningstímabilinu?
Það var bara verið að fínpússa alla hluti hjá okkur, bæta styrk og snerpu og gera okkur tilbúna fyrir tímabilið.
Eru margir nýir leikmenn í liðinu eins og þú? Kanntu vel við þig?
Ég er eini nýi leikmaðurinn en þeir tóku mér allir vel og mér líður bara vel hér. Þetta er frekar lítill skóli þannig að allir þekkja alla hérna, sem gerir mér auðvelt að fá hjálp ef þörf er á.
Hvaða liði ertu spenntastur að mæta?
Við keppum á móti mörgum góðum skólum. Valið yrði á milli Xavier sem er 7. besta liðið í landinu, North Carolina sem er 6. eða Kansas sem er 3. besta liðið.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?
Ég vakna svona hálf 9, fer í morgunmat og svo í tíma kl. 9:15. Svo fer ég að skjóta létt, hádegismatur eftir það og lyftingaæfing kl. 12:30. Ég fer í tíma kl. 13:45 og svo er æfing strax eftir tímann í svona tvo og hálfan, þrjá tíma. Svo er kvöldmatur og heimalærdómur á kvöldin.
Hvernig var fyrsti leikurinn?
Fyrsti leikur Grindvíkingsins var gegn Appalachian State og endaði með 86-74 sigri þar sem Jón Axel skoraði 11 stig og gaf 5 stoðsendingar í sínum fyrsta leik í háskólaboltanum. Jón Axel sagðist nokkuð sáttur með fyrsta leikinn sem hafi verið mjög skemmtilegur. „Fyrsti leikurinn var geggjaður. Smá stress einkenndist í byrjun en eftir að það fór gat maður spilað sinn leik og sannað sig aðeins meira.“