Markalaust jafntefli í Njarðvík
Njarðvík og ÍBV skildu jöfn í markalausu jafntefli þegar liðin mættust í lokaleik fjórðu umferðar Lengjudeildar karla í knattspyrnu fyrr í dag.
Njarðvík - ÍBV 0:0
Það blés hressilega í Njarðvík í dag og Njarðvíkingar höfðu vindinn með sér í fyrri hálfleik og höfðu þá ágætis tök á leiknum. Njarðvík stýrði leiknum en það vantaði upp á gæðin hjá þeim efst á vellinum og þeim gekk illa að skapa sér færi. Eyjamenn vörðust vel og aftarlega en sóttu hratt þegar færi gafst og sóknir þeirra voru talsvert beittari en heimamanna.
Í seinni hálfleik snerist dæmið við og Eyjamenn tóku leikinn yfir. Sóknarþungi ÍBV var mikill og eftir því sem leið á leikinn þyngdist sókn gestanna og Njarðvíkingar voru á löngum köflum í nauðvörn. Njarðvíkingar geta þakkað markverði sínum, Aroni Snæ Friðrikssyni, fyrir að hafa fengið stig úr leiknum en Aron varði eins og berserkur og var langbestur heimamanna í dag. Þá átti Björn Aron Björnsson góðan dag í vörn og sókn en Eyjamenn fundu enga leið framhjá honum og þá var hann einnig gríðarlega vinnusamur fram á við. Þegar Birni var skipt út af (77’) var hann örugglega búinn að tæma tankinn.
Freysteinn Ingi Guðnason átti einnig sterka innkomu síðasta korterið af leiknum og hressti örlítið upp á sóknarleik Njarðvíkur en eins og fyrr segir var ekkert mark skorað og Njarðvíkingar því enn taplausir í Lengjudeildinni í ár og verma efsta sætið en Fjölnismenn eru jafnir þeim að stigum.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum í dag og er myndasafn neðst á síðunni. Þá má horfa á leikinn í spilaranum hér að neðan.