Marín: Bindum enda á siglingu Grindavíkur í kvöld
Annar tveggja fyrirliða Keflavíkur, Marín Karlsdóttir, leikur ekki með Keflavík gegn Grindavík í kvöld þegar liðin mætast í toppslag
,,Ég var að keyra inn í teig og fékk þá högg á hnéð en talið er að þetta sé tognað liðband í hné,” sagði Marín í samtali við Víkurfréttir þar sem hún var stödd í sjúkraþjálfun. ,,Þetta er að skána hjá mér en ég verð ekki með í kvöld en er samt byrjuð að skokka og þetta er allt að koma. Ég verð væntanlega með Keflavík á næstu æfingu eftir leikinn í kvöld.”
Marín hefur gert 7,9 stig að meðaltali í leik fyrir Keflavík í deildinni í vetur og bætist nú í þéttskipaðan fjarverandi kladda Keflavíkur með þeim Svövu Stefánsdóttur og Bryndísi Guðmundsdóttur. Hún var þó brött og sagði að leikur kvöldsins legðist vel í hana.
,,Það er góð stemmning í hópnum núna og ef við mætum með rétt hugarfar þá vinnum við þetta. Við lítum þannig á að við höfum tapað leiknum gegn þeim í Grindavík í desember en ekki að þær hafi unnið leikinn. Við vorum líka búnar að vinna 8 deildarleiki í röð þegar við mættum Grindavík eins og þær eru búnar að gera núna. Grindavík er búið að vera á góðri siglingu að undanförnu en við bindum enda á það í kvöld.”
VF-Mynd/ [email protected] – Marín í leik með Keflavík gegn KR fyrr á þessari leiktíð.