Margt um manninn á Harlem Globetrotters
Það var fjölmennur hópur áhorfenda sem mætti í íþróttahúsið við Sunnubraut til að bera körfuboltakappana í Harlem Globetrotters augum í gær. Sýningin sem þeir settu upp var frábær í alla staði og skemmtu áhorfendur sér konunglega enda fengu þeir mikið fyrir sinn snúð og tóku virkan þátt í leiknum. Skemmst er frá því að segja að Harlem Globetrotters unnu leikinn, 81-53, en liðið sem þeir spiluðu við hét New York Nationals.Sýning Harlem Globetrotters hófst kl. átta og stóð yfir í tvær klukkustundir. Allt var gert til að áhorfendur skemmtu sér sem best enda fengu þeir eins og áður sagði að taka virkan þátt í leiknum. Í leiknum sjálfum var mikið um troðslur, snilldar knattrækni og glæsilegt sampspil. Tveir leikmanna liðsins voru með hljóðnema á sér allan leikinn og notuðu þeir hann óspart til að fíflast í dómara leiksins og áhorfendum, sem höfðu mikið gaman að.Eftir leikinn var áhorfendum boðið að fá eiginhandaráritanir frá köppunum og myndaðist strax stór hópur krakka sem ólmir vildu fá nafn stjarnanna á blað. Leikmenn liðsins eiga hrós skilið fyrir þá þolinmæði sem þeir sýndu krökkunum og greinilegt að þarna eru gæðablóð á ferð.







