Margir af Suðurnesjum í karlalandsliðinu í körfubolta
	Æfingahópur landsliðs karla í körfuknattleik hefur verið valinn, en 24 leikmenn hafa verið boðaðir til æfinga þann 20. júlí. Hópurinn verður  fljótlega minnkaður niður 14 til 15 leikmenn sem æfa saman í sumar, en endanlega verður 12 manna lið valið sem heldur út til Finnlands á lokamót EM 2017.
	
	Þó nokkrir Suðurnesjamenn eru í hópnum; Dagur Kár Jónsson sem spilar með Grindavík, Elvar Már Friðriksson frá Barry University í Bandaríkjunum, Gunnar Ólafsson sem spilar með St. Francis University í Bandaríkjunum, Hörður Axel Vilhjálmsson sem leikur með Keflavík, Jón Axel Guðmundsson sem spilar með Davidson University í Bandaríkjunum, Kristinn Pálsson sem spilar með Marist University í Bandaríkjunum, Logi Gunnarsson sem spilar með Njarðvík, Ólafur Ólafsson sem spilar með Grindavík og Sigurður Gunnar Þorsteinsson sem spilar með AE Larissas í Grikklandi.
	
	Landsliðið mun undirbúa sig fyrir EM með æfingaleikjum gegn Belgíu hér heima 27. og 29. júlí og fara í tvær æfingaferðir í ágúst fyrir brottförina til Finnlands, fyrst til Rússlands og svo til Ungverjalands og Litháens í sömu ferð. Alls verða leiknir átta æfingaleikir í sumar fyrir EM.


.jpg) 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				