Magnús Þórisson dæmir í Evrópudeildinni ásamt Gylfa Sigurðssyni
Magnús Þórisson knattspyrnudómari mun dæma í Evrópudeild UEFA í næsta mánuði. Magnús sem dæmir undir merkjum Sandgerðinga mun dæma leik Cliftonville og The New Saints. Með honum í för verður að sjálfsögðu íslenskt dómarateymi og meðal þeirra er ungur og efnilegur dómari af Suðurnesjum. Sá heitir Gylfi Már Sigurðsson 24 ára piltur sem dæmir fyrir Njarðvíkinga.
„Gylfi er feikilega efnilegur dómari og góður drengur, hann er líka klár strákur og augljóslega þeim gáfum gæddur sem þarf til að verða góður dómari,“ sagði Magnús Þórisson í samtali við Víkurfréttir. Magnús hefur verið í verkefnum hjá UEFA síðan 2007 bæði í undankeppni meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar. „Það sem stendur uppúr hjá mér eru verkefnin sem ég hef farið í með Kristni Jakobssyni í meistaradeildinni þar sem við höfum verið fimm dómarar á leikjum, þar hef ég verið á endalínunni sem er mjög skemmtilegt,“ bætti Magnús við.
Magnús hefur dæmt í efstu deild karla síðan árið 2003. Hann er í dag einn fremsti knattspyrnudómari landsins og hefur verið undandarin ár, hann dæmdi til að mynda úrslitaleik Visa bikarsins á milli KR og Fjölnis 2008.
Magnús hefur verið FIFA dómari frá árinu 2007 og hefur síðan þá tekist á við fjölmörg verkefni erlendis, bæði landsleiki og leiki félagsliða, m.a. var Magnús annar af endalínudómurum á leik Liverpool og Utrecht sem hann sagði einstaka upplifun. „Maður fékk alveg gæsahúð þegar maður kom á Anfield og maður skynjar alveg söguna hjá félaginu þegar maður fer inn í búningsklefana,“ segir Magnús sem þó styður grannana í Manchester United. „Maður viðurkennir þetta þó, enda mikið ævintýri að dæma í svona leikjum,“ sagði Magnús að lokum.