Magnús Þór kærður til aganefndar KKÍ
Sendi afsökunarbréf vegna atviksins í leik Keflavíkur og KR.
Magnús Þór Gunnarsson, fyrirliði Keflvíkinga í Domino's deildinni í körfuknattleik sendi frá sér yfirlýsingu vegna atviks í leik Keflavíkur við KR í úrvalsdeildinni í fyrrakvöld. Þar biðst hann afsökunar á framferði sínu.
„Í leik toppslag KR og Keflavíkur í Domino´s deildinni í gær átti sér stað atvik í seinni hálfleik þar sem undirritaður rak olnbogann í andlit Brynjars Þórs Björnssonar, leikmanns KR, með þeim afleiðingum að hann féll í gólfið. Það er ljóst að ég fór mjög ógætilega að því að losa mig frá Brynjari og vill ég nota tækifærið og biðja Brynjar og KR-inga innilegrar afsökunar á þessu. Komi til þess að ég verði dæmdur í bann vegna atviksins mun ég taka því, læra af þessu og mæta svo tvíefldur til leiks til að aðstoða félaga mína vinna 10. Íslandsmeistaratitilinn í sögu Keflavíkur.“
Dómaranefnd KKÍ hefur ákveðið að senda inn kæru til aganefndar sambandsins vegna atviksins.
KR vann nauman sigur á Keflavík, 90-89, en um miðjan þriðja leikhluta fékk Brynjar Þór Björnsson, sem skoraði sigurkörfu KR, högg í andlitið frá Magnúsi Þór Gunnarssyni.
Hér má sjá myndbandsbrot úr leiknum þar sem Magnús brýtur á Brynjari.