Magnús fjórði dómari á Goodison Park
Knattspyrnudómarinn Magnús Þórisson verður fjórði dómari á viðureign Everton og FC. Zenit Petersburg í Evrópukeppni félagsliða (UEFA Cup) þann 5. desember næstkomandi. Magnús er á meðal reyndustu dómara landsins og verður í dómarateymi á Englandi með þeim Sigurði Óla Þorleifssyni Gunnari Gylfasyni og Kristni Jakobssyni sem verður aðaldómari leiksins.
Kristinn var nýverið hækkaður upp í næstefstu dómaragrúppu hjá UEFA sem kallast Premier group og í henni verða nöfn liðanna í mótinu stærri og leikirnir þýðingarmeiri svo von er á að félagarnir fjórir dæmi fleiri stórleiki þegar fram líða stundir.
Everton og FC. Zenit Petersburg eru efst í sínum riðli og gerir Magnús ráð fyrir því að um hörkuleik verði að ræða.
Mynd: Dómararnir fjórir frá Íslandi dæmdu í sumar leik Búlgara og Hvíta Rússlands. Magnús er þriðji til hægri á myndinni og Kristinn Jakobsson er annar til hægri.