Magnús fær FIFA-réttindi
Í ársbyrjun samþykkti FIFA tilnefningu frá KSÍ um að Magnús Þórisson dómari hjá Keflavík yrði milliríkjadómari. Magnús er því einn af fjórum FIFA-dómurum sem koma frá Íslandi en hinir eru Kristinn Jakobsson, Jóhannes Valgeirsson og Garðar Örn Hinriksson.
Af þessu tilefni var Magnús kallaður út á ráðstefnu fyrir nýja dómara frá Evrópu sem haldin var í Róm daganna 5.-9. febrúar. Þetta voru alls 38 dómarar sem þarna voru mættir og tilefnið var að sjálfsögðu að athuga hvort þeir væru hæfir dómarar. Tekið var strangt hlaupapróf og var prófið tekið á Ólympíuleikvanginum í Róm. Þar á eftir var farið í munnlegt enskupróf því að sjálfsögðu verða menn að getað tjáð þig þegar þeir fara erlendis til að dæma. Að lokum var dómurunum skipt í vinnuhópa og þurftu hóparnir að skila inn þremur verkefnum og verja sín verkefni fyrir framan dómaranefnd UEFA. Þannig að álagið var töluvert á mannskapinn. Eftir hlaupaprófið og enskuprófið var ljóst að þrír hefðu fallið í hvoru prófi þannig að þeir fá ekki að dæma FIFA leiki fyrr en þeir hafa staðist þessar kröfur.
Að lokum komu svo allir bestu dómarar Evrópu og sátu með þeim ráðstefnunna síðustu tvo dagana. Að sjálfsögðu deildu þeir sinni miklu reynslu og var það hreint út sagt ótrúlegt fyrir nýliðana að hitta alla þessa kappa.
www.keflavik.is
Mynd: Magnús með frægasta knattspyrnudómara heims, Pierluigi Collina frá Ítalíu.