Magnþrungin spenna í Grindavík - myndasafn úr leiknum
Grindvíkingar máttu þola tap á heimavelli í gærkvöldi þegar þeir tóku á móti liði Fjölnis. Mikil spenna var í leiknum og þurfti að framlengja honum. Þar náðu Fjölnismenn að tryggja sér sigur á lokasprettinum. Grindvíkingar léku án þriggja lykilmanna liðsins, þeirra þeirra Þorleifs Ólafssonar, Brenton Birmingham og Arnars Freys Jónssonar en þeir eru allir frá vegna meiðsla.
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Grindvíkingar voru yfir eftir fyrsta leikhlutann, 28-35. Staðan í hálfleik var 47-43. Fjölnismenn voru sterkari í þriðja leikhlutanum og skoruðu 30 stig á móti 24. Darrel Flake hélt heimamönnum inn í leiknum og staðan eftir þriðja leikhluta var 73-71 fyrir Fjölni.
Heimamenn komu sterkir til í leiks í fjórða leikhluta þar sem Flake og Ólafur Ólafsson drógu vagninn. Andrúmsloftið var þrungið spennu á lokasprettinum. Eftir mikinn darraðardans á lokasekúndunum var staðan 99-99 þegar flautað var til leiksloka og framlenging blasti við.
Sennan hélt áfram í framlengingunni og þegar innan við mínúta var eftir skoraði Guðlaugur Eyjólfsson tvær þriggja stiga körfur fyrir Grindavík sem þar með voru komnir með 2ja stiga forystu. Fjölnismenn komust stigi yfir með 3ja stiga körfu þegar 17 sekúndur voru eftir. Ármann Vilbergsson tók 3ja stiga skot og tilraun Ólafs Ólafssonar til að blaka boltanum ofan í misstókst naumlega. Fjölnir fékk boltann og náði að trygga sér sigur með tveimur vítaskotum sem Tómas Tómasson setti ofan í.
Darrel Flake skoraði 38 stig fyrir Grindavík og hirti 10 fráköst. Ómar Örn Sævarsson var með 22 stig og Guðlaugur Eyjólfsson 20 stig. Hann skoraði úr 6 af 9 þriggja stiga skotum sínum.
Flake er hér að neðan í baráttunni í leiknum í gær. Á efri myndinni má sjá Guðlaug Eyjólfsson skorar eina af sex þriggja stiga körfum sínum í leiknum. Meiðslaleikmenn UMFG sjást á vara-varamannabekknum ásamt fleiri Grindvíkingum. VF-myndir/Hildur Björk Pálsdóttir. Sjá fleiri myndir frá henni úr leiknum í ljósmyndasafni. Smellið hér.