Magnaður sigur hjá Grindavíkurstúlkum á Haukum
Grindvíkingar unnu óvæntan en magnaðan sigur á deildarmeisturum Hauka í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Domino’s deildar kvenna í körfubolta. Lokatölur urðu 58-61, svakalegur sigur Grindavíkurkvenna á útivelli.
Það var ekki margt sem benti til þess að þær grindvísku myndu fara með sigur af hólmi því Haukastúlkur voru miklu betri í fyrri hálfleik og leiddu með fjórtán stiga mun, 37-23.
Grindavíkurstúkur mættu í allt öðrum gír í síðari hálfleik. Þær unnu upp forskot heimakvenna niður í eitt stig og komust strax í upphafi fjórða leikhluta yfir í fyrsta skipti í leiknum 49-52. Lokakaflinn var æsispennandi en með baráttuna að vopni tókst þeim grindvísku að innbyrða ótrúlegan sigur.
Grindvíkingum tókst að dempa besta leikmann landsins, Helenu Sverrisdóttur, í síðari hálfleik og munaði um minna því hún var allt í öllu í fyrri hálfleik. Hún skoraði 15 stig í fyrri hálfleik en endaði með 21 stig, 22 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá þeim grindvísku var Whitney Frazier með 24 stig og þær Björg Guðrún og Ingunn Embla Kristínardóttir með 7 stig hvor.
Næsti leikur liðanna verður 2. apríl en þá mætast þau í Mustad-höllinni Grindavík.
Sjá videoviðtal við þjálfara Grindavíkur eftir sigurleikinn á karfan.is