Magnaði Magnús tryggir Deildarmeistaratitilinn
Keflvíkingar tryggðu sér deildarmeistara titilinn í körfuknattleik í kvöld eftir sigur á nágrönnum sínum í Njarðvík 94-82.
Leikurinn fór rólega af stað og var í járnum í fyrsta leikhluta. Friðrik Stefánsson var illviðráðanlegur undir körfu Keflvíkinga og skoraði 8 stig í fyrsta leikhluta. Anthony Glover var sterkur í byrjun leiks og skoraði 9 stig í fyrsta fjórðung fyrir Keflavík. Strax í upphafi leiks var ljóst að leikmenn og þjálfarar liðanna voru komnir til að sigra og leikmenn spiluðu af mikilli hörku. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 19-17 Keflvíkingum í vil.
Annar leikhluti byrjaði fjörlega og réðu Njarðvíkingar ekkert við Glover sem skoraði 10 stig í röð og kom Keflavík í 33-21. Hjá Njarðvík var Brenton og Ólafur að halda Njarðvíkingum á floti. Nick Bradford og Anthony Glover lentu í villuvandræðum undir lok annars leikhluta og ákvað Sigurður Ingimundarson að hafa þá á bekknum síðustu 3 mínútur þar sem þeir báðir voru komnir með þrjár villur. Jón Hafsteinsson kom þá inná og lék vel á lokamínútum annars leikhluta og skoraði meðal annars tvær góðar körfur og spilaði vel í vörn. Njarðvíkingar náðu að minnka aðeins forskot Keflvíkinga og var staðan 47-42 í hálfleik og skoraði Glover 21 stig í fyrri hálfleik og Friðrik Stefánsson 12 fyrir Njarðvík.
Sigurður Ingimundarson hefur stemmt sína menn vel í hálfleiknum og mættu Keflvíkingar til leiks af gríðarlegum krafti og skoruðu fyrstu átta stigin í seinni hálfleik og komust í 55-42. Magnús Gunnarsson stal senunni í seinni hálfleik og áttu Njarðvíkingar engin svör við hinum magnaða Magnúsi. Hann var funheitur á þriggja stiga línunni og kveikti í áhorfendum Keflvíkinga sem sungu lög honum til heiðurs. Matt Sayman og Anthony Lackey sem voru rólegir í fyrri hálfleik létu loks vita af sér í þriðja leikhluta og skoruðu saman 14 stig í þriðja leikhluta fyrir Njarðvíkinga. Staðan í lok þriðja leikhluta var 71-64 og Keflvíkingar ávallt skrefinu á undan Njarðvík.
Í fjórða leikhluta gerðu Njarðvíkingar sig líklega til að stela sigri þegar baráttujaxlinn Halldór Karlson kom inná með látum. Hann setti fimm stig í röð og þar á meðal ævintýralega körfu langt útá velli og minnkaði muninn í 79-75. En Adam var ekki í lengi í paradís hjá Njarðvíkingum og skriðu Keflvíkingar hægt og bítandi framúr Njarðvíkingum. Njarðvíkingar skoruðu aðeins sjö stig síðustu fimm mínútur leiksins á meðan að Magnús Gunnarsson setti þrjár þriggja stiga körfur í leikhlutanum. Leikurinn endaði 94-82 og voru Keflvíkingar ávallt skrefinu á undan Njarðvíkingum og uppskáru sanngjarnan sigur í skemmtilegum leik og tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í Sláturhúsinu fyrir framan stuðningsmenn sína með Trommusveitina í broddi fylkingar.
Magnús Gunnarsson og Anthony Glover voru bestir hjá Keflvíkingum, Glover skoraði 35 stig í leiknum og tók 10 fráköst. Magnús var með flugeldasýningu í kvöld og skoraði 26 stig og þar af setti hann átta þriggja stiga körfur af ellefu skottilraunum. Nick Bradford var með 14 stig og 8 fráköst fyrir heimamenn.
Hjá Njarðvíkingum var Friðrik Stefánsson stigahæstur með 15 stig og 10 fráköst. Anthony Lackey og Brenton Birmingham voru með 14 stig hvor og Páll Kristinsson 11 stig.
Einar Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, var að vonum ekki ánægður með úrslitin en taldi þó að munurinn hafi aldrei verið óbrúanlegur á milli liðanna. „Við gerðum of mikið af mistökum í leiknum og spiluðum illa varnarlega og svo var ég engan veginn hrifinn af því að Keflvíkingar skildu skora 94 stig í leiknum.“ Hann sagði að sínir menn verði að gera betur í næsta leik og í úrslitakeppninni en taldi liðið geta farið alla leið.
Sigurður Ingimundarson var öllu ánægðari í leikslok og var farinn að spá í úrslitakeppninni. „Við höldum áfram að gera það sem við vorum að gera í kvöld, fyrir okkur var þetta leikurinn sem við ætlum að spila í úrslitakeppninni. Við spiluðum hörkuvörn í leiknum sem var frábær skemmtun. Tvö frábær lið að spila og við unnum á heimavelli,” sagði Sigurður. Hann var að vonum ánægður með Magnús í leiknum. „Þegar hann er einbeittur og fær hjálp frá liðsfélögunum er mjög erfitt að ráða við hann fyrir hvern sem er.” Sigurður sagði að lokum að Glover hafi spilað eins og höfðingi og að liðið hafi verið í smá lægð en sé á góðum stað núna og á góðum tíma.
VF-Myndir/Hilmar Bragi og Jón Björn