Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Maggi aftur í Njarðvík
Laugardagur 20. nóvember 2010 kl. 09:40

Maggi aftur í Njarðvík

-vonast til að vera með gegn Keflavík á mánudaginn. „Ekki neitt Liverpool „syndrom“ hjá Njarðvík,“ segir Sigurður þjálfari

„Ég er kominn heim og verð í grænu. Það er á hreinu. Það verður tilbreyting að taka þátt í fallbaráttunni með Njarðvík en það verður ekki lengi,“ sagði Magnús Gunnarsson, stórskytta en hann mun styrkja Iceland Express lið Njarðvíkur í baráttunni í körfunni.

„Ég bíð bara eftir félagaskiptapappírum frá Danmörku. Það á að ganga fyrir helgi þannig að ég geti mætt í Toyota höllina með Njarðvík gegn mínum gömlu félögum í Keflavík. Það er ekki amalegt að fá stórleik sem fyrsta leik hjá mér á Íslandi á þessari leiktíð,“ sagði Magnús.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Nei, þetta er ekki Liverpool „syndrom“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkinga og Liverpool aðdáandi, um gengi liðsins í vetur sem hefur verið langt undir væntingum. „Við eigum von og ætlum okkur að hífa okkur upp töfluna. Það er ekki mikið búið af mótinu en þó nógu mikið til þess að við þurfum að taka okkur saman í andlitinu. Leikurinn gegn Keflavík á mánudaginn er auðvitað einn af stórleikjum ársins. Leikir sem allir hér á Suðurnesjum, leikmenn og aðrir bíða eftir. Keflvíkingar eru mjög góðir og hafa tekið kipp eftir að hafa styrkt liðið nýlega,“ sagði Sigurður.

Jón Guðlaugsson, formaður körfuknattleiksdeildar UMFN sagði að stjórnin hefði fundað í vikunni með Sigurði um gengi liðsins í byrjun móts og það sé ekkert annað í gangi en að styðja þjálfarann 100% í hans störfum. „Auðvitað eru menn ekki ánægðir með gengið en við vitum hvað við höfum í Sigga og treystum honum fyllilega fyrir verkefninu. Það verður gaman að mæta Keflvíkingum eins og alltaf og vonandi tekst okkur vel upp. Þetta eru leikir sem allir vilja vinna,“ sagði formaðurinn.