Mættu ofjarli sínum
Evrópuævintýri Keflvíkinga er úti þetta árið eftir 0-2 tap gegn þýska úrvaldeildarliðinu Mainz í kvöld. Fyrri leikur liðanna fór einnig 2-0 fyrir Mainz þannig að fyrirfram var ljóst að mikið verkefni beið Keflvíkinga á Laugardalsvelli í kvöld.
Bæði lið höfðu lofað sóknarbolta, en eitthvað stóð á honum í upphafi leiks því Keflvíkingar voru aftarlega á vellinum og tóku enga áhættu fram á við á meðan Þjóðverjarnir ógnuðu ekki verulega þrátt fyrir að stjórna spilinu.
Leikmenn Mainz héldu boltanum vel innan liðsins en varnarlína Keflvíkinga kæfði sóknirnar áður en í óefni var komið.
Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður dró loks til tíðinda þegar Michael Thurk fékk háa sendingu frá hægri kanti inn í teig Keflvíkinga á 26. mínútu. Hann tók boltann á bringuna og þrumaði honum viðstöðulaust upp í markhornið fjær, gjörsamlega óverjandi fyrir Ómar Jóhannsson í marki Keflvíkinga.
Með markinu voru vonir Keflvíkinga nær úr sögunni því nú þurftu þeir að gera fjögur mörk til að vinna upp markamuninn og útivallarmark Mainz. Þjóðverjarnir náðu nokkrum góðum sóknum í kjölfar marksins, en Ómar var jafnan réttur maður á réttum stað þegar á reyndi. Hann varði skot Thurks í horn á 29. mínútu og lokaði markinu þegar Petr Ruman komst inn fyrir Issa Kadir. Í millitíðinni hafði Hólmar Örn Rúnarsson átt fyrsta færi Keflvíkinga þegar hann komst inn í teig, en skaut yfir.
Á 42. mínútu átti Benjamin Auer gott færi en náði ekki í stungusendingu sem rann út fyrir endamörk. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks komst Hörður Sveinsson svo inn í teiginn en náði ekki skoti að markinu. Segja má að markvörður Mainz, Dimo Wache hafi örugglega átt erfiðari kvöld, en hann þurfti ekki að láta til sín taka allan leikinn.
Ljóst var að róðurinn yrði afar þungur fyrir Keflvíkinga, þremur mörkum undir samtals, en þeir mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik. Þeir pressuðu vel um allan völl, nokkuð sem vantaði á löngum köflum í fyrri hálfleik, og færðu sig framar á völlinn í sóknaraðgerðum sínum. Þeir urðu þó fyrir áfalli þar sem Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflvíkinga þurfti að setjast á bekkinn vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir í upphafi leiksins. Er óútséð hvort hann missi af leikjum á næstunni, en Keflvíkingar vona það besta.
Jafnræði var með liðunum þó enn gengi ekkert fyrir Keflvíkinga að komast í færi og klára sóknir því vörnin var sterk og hélt aftur af sóknartilburðum Mainz. Gestirnir áttu þó tvær ágætis tilraunir sem rötuðu ekki á rammann á 66. og 68. mínútu.
Lítið gerðist eftir það og virtist sem drægi af Keflvíkingum, enda borin von að fá eitthvað annað en reynsluna út úr leiknum. Stuðningsmenn liðanna skemmtu sér þó konunglega á leiknum og var samvinna þeirra aðdáunarverð, en þeir hittust fyrir leik til að stilla saman strengi sína. Þótt Mainz-liðar væru skipulagðari og æfðari í sínum söngvum og köllum stóð Puma-sveitin fyrir sínu líkt og endranær og fór fyrir Keflvíkingum.
Allt leit út fyrir að 0-1 yrðu lyktir leiksins, en varamaðurinn Tom Geissler bætti öðru markinu við á 85. mínútu. Varnarmaðurin Guðmundur Viðar Mete skallaði boltann frá marki Keflavíkur, en Geissler skaut honum viðstöðulaust í markið og gerði út um leikinn í eitt skipti fyrir öll.
Mainz fékk tvö góð færi á lokamínútunum, en Ómar var enn vel á verði og sá fyrir þeim.
Þannig er þátttöku Keflavíkur í UEFA-bikarnum lokið, en þeir mega vel við una. “Við komumst alla vegana lengra en Glasgow Celtic,” sagði Guðmundur Steinarsson í samtali við Víkurfréttir í leisklok.
“Við erum sáttir við okkar leik að mestu. Við vorum ekki að klára sóknirnar okkar nógu vel og við þurftum að skora, en okkur vantaði smá yfirvegun í sóknarleiknum. Varnarvinnan var fín hjá okkur og ef við spilum svona getum við unnið hvaða lið sem eer hér á Íslandi.”
“Þetta var umfram allt góð viðbót í reynslubankann og skemmtilegt krydd í sumarið. Þetta gefur okkur líka ákveðið hungur til að ná þriðja sætinu í deildinni og komast aftur í þessa keppni á næsta ári,” sagði Guðumundur og tók sérstaklega fram hversu gaman hefði verið að sjá og heyra í stuðningsmönnunum uppi í stúkunni.
VF-myndir/Atli Már