„Mætti líkja þessu við Keflavíkurliðið frá 1997“
Jóhann Birnir Guðmundsson, leikmaður Keflavíkur í Pepdi-deild karla í knattspyrnu er í skemmtilegu viðtali í Morgunblaðinu í dag þar sem hann fjallar um tímabil Keflvíkinga en liðið hefur komið skemmtilega á óvart og ungir heimamenn verið í lykilhlutverki það sem af er sumri.
Jóhann sjálfur hefur leikið eins og engill og er í öðru til þriðja sæti í einkunnagjöf Morgunblaðsins í sumar en hann hefur verið í stóru hlutverki hjá liðinu. Liðinu var spáð fallbaráttu af flestum nú í vor en Keflvíkingar voru ekki á þeim buxunum. Suðurnesjamenn eru komnir með 21 stig þegar átta umferðir eru eftir og eru ekki nema tveimur stigum frá Evrópusæti.
„Við erum að ná okkar markmiðum núna,“ segir Jóhann Birnir í samtali við blaðið. „Markmiðið var að vera um miðja deild og eiga séns undir lok tímabilsins á að gera eitthvað skemmtilegt.“
Jóhann ræðir um ungu strákana í liðinu og segir hann að þetta tímabil sé sennilega það skemmtilegasta sem hann hafi upplifað í boltanum. Ungu strákarnir hafi kveikt neista hjá eldri mönnum liðsins og karekterinn og stemningin í klefanum hjá liðinu sé til fyrirmyndar.
„Það er hægt að líkja þessu liði við liðið frá 1997 sem varð bikarmeistari. Þá vorum við bara með heimamenn og svona einstök stemning ríkti í klefanum,“ segir Jóhann í Morgunblaðinu í dag.