Madeira-menn kvarta undan hörku Keflvíkinga
Leikmenn CAB Madeira voru ósáttir við hörku Keflvíkinga í leik liðanna í gær. Þetta kemur fram á fréttavef keflavik.is í dag en þeir hafa þýtt grein af heimasíðu portúgalska körfuknattleikssambandsins þar sem þetta kemur fram.
Minnst er á atvik í leiknum þar sem leikmaður Madeira, Fernandes að nafni, fór í gólfið eftir viðskipti sín við Magnús Þór. Svo virtist sem Magnús hafi rekið olnboga af slysni í andlit Portúgalans sem fleygði sér í gólfið með miklum harmkvælum og lá þar lengi vel. Hann kom ekki meira við sögu í leiknum og fannst Madeira-mönnum sem að dómararnir hafi ekki tekið á þeim málum með réttum hætti.
Þá fannst þeim að lögleg karfa hafi verið dæmd af Ken Leeks undir lokin vegna þess að hann hafi tekið of mörg skref. Þeir hrósa Keflvíkingujm hins vegar fyrir baráttuvilja og gott úthald. Þá lofa þeir að taka hressilega á móti Keflvíkingum þegar þeir koma til Madeira í útileikinn, þar sem þá verði þeir búnir að fá sterka leikmenn aftur úr meiðslum.