Maciej: Maður þarf ekkert frí
Njarðvíkingurinn Maciej Baginski segist hafa öðlast mikla reynslu á þessu tímabili en hann spilaði stóra rullu þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára. Víkurfréttir tóku Maciej tali í gær en hljóðgæðin eru ekki með besta móti svo lesa má viðtalið hér að neðan.
„Við ætluðum að berja aðeins á þeim og vera með meiri baráttu og sjá hvort það myndi skila okkur sigri, en ég held að við getum alveg gengið héðan út sáttir. Í hinum leikjunum gegn Grindavík gekk það ekki upp og skilaði sér í 30 stiga tapi í báðum leikjum, en hérna var þetta mun jafnara,“ sagði hinn ungi Njarðvíkingum Maciej Baginski í lok leiks Njarðvíkinga og Grindvíkinga í gær þar sem deildarmeistarar Grindvíkinga unnu sér sæti í undanúrslitum.
Þetta er einfaldlega nokkuð sterkt lið sem þið vorum að keppa við, þið gerðuð væntanlega ykkar besta? „Þegar leikmenn eins og Pettinella, Páll Axel og Ólafur Ólafsson eru á bekknum þá hlýtur þetta að vera gott lið. Þeir voru bara sterkari en við.“
Þegar Maciej lítur yfit tímabilið þá segist hann vera reynslunni ríkari „Bæði hjá mér persónulega og hjá liðinu þá var þetta svona upp og niður á tímabilinu. Við áttum góða kafla og slæma.“
Var eitthvað sem kom þér á óvart á þessu tímabili? „Nei ég get ekki sagt það. Bæði Frikki og Einar voru búnir að undirbúa okkur vel síðasta sumar. Við vorum duglegir í lyftingarsalnum og fundum ekki mikið fyrir styrkleikamun. Við vorum þokkalega tilbúnir.“
Þið, þessir ungu leikmenn virðist vera frekar óhræddir við þessa karla? „Já auðvitað. Maður tekur bara öllum eins, það er ekkert annað hægt. Maður ber virðingu fyrir öllum og tekur eins á móti öllum andstæðingum.“
Náðir þú þér í góða reynslu á þessu tímabili? „Já klárlega. Maður veit hvað maður þarf að gera til þess að verða góður í þessari deild. Á næsta tímabili verður liðið vonandi betra. Við náum okkur vonandi í betra sæti í úrslitakeppninni og sjáum til hvað gerist svo.“
Er eitthvað frí framundan hjá þér? „Nú er bara undirbúningur fyrir loka leikina í 11. - drengja og unglingaflokki. Svo er Norðurlandamót í sumar og undirbúningur fyrir EM. Þannig að það er ekkert frí. Maður þarf ekkert frí,“ sagði Maciej Baginski að lokum.