Lýsingarbikarinn: Njarðvíkingar úr leik í fyrstu umferð
Íslandsmeistarar Njarðvíkur féllu út úr bikarkeppni KKÍ og Lýsingar í 32-liða úrlsitum í dag þegar þeir töpuðu gegn ÍR á útivelli, 71-68. Þeim virðast allar bjargir bannaðar þessa dagana því þetta var sjötti leikurinn í röð sem þeir tapa.
Leikurinn var jafn til að byrja með en í öðrum og þriðja leikhluta keyrðu ÍR-ingar, sem skiptu um þjálfara á dögunum, um gír og keyrðu yfir Njarðvíkinga. Munurinn fór yfir 20 stig í þriðja leikhluta en fyrir þann fjórða var staðan 59-41.
Í upphafi fjórða leikhluta var eins og annað Njarðvíkurlið kæmi til leiks og minnkaði munurinn fljótt. Á skömmum tíma breyttu Njarðvíkingar stöðunni og jöfnuðu leikinn 66-66.
Friðrik Stefánsson kom þeim svo yfir 66-68, en Hreggviður Magnússon, sem er farinn að leika með ÍR á ný eftir meiðsli, setti mikilvæga þriggja stiga körfu. Nate Brown stal svo boltanum í næstu sókn og Eiríkur Önundarson kláraði leikinn af vítalínunni.
Njarðvíkingar fá nú frest fram á föstudag til að finna leið út úr öldudalnum, en þá mæta þeir hinu sterka liði Samara frá Rússlandi í Íþróttahúsinu í Keflavík.
Meðal annara úrslita má geta þess að lið Þróttar frá Vogum gerði harða atlögu að úrvalsdeildarliði Þórs frá Þorlákshöfn, en mátti sætta sig við naumt tap, 101-115.
Á morgun sunnudag mæta Keflvíkingar Hetti á Egilstöðum, Grindavík fær Snæfell í heimsókn og B-lið UMFN fær Hamar/Selfoss í Ljónagryfjunni.
VF-mynd úr safni