Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Lykilatriði að njóta þess að spila“
Sigurður Ingimundarson.
Föstudagur 20. febrúar 2015 kl. 00:02

„Lykilatriði að njóta þess að spila“

Keflavík er sigursælasta liðið í bikarkeppni KKÍ í kvennaflokki frá upphafi

Keflavík er sigursælasta liðið í bikarkeppni KKÍ í kvennaflokki frá upphafi. Titlarnir eru alls 13 hjá Keflavík (1988, 89, 90, 93, 94, 95, 96, 97, 98, 2000, 04, 11, 13). KR kemur þar á eftir með 10 titla og ÍS er með 6. Sigurður Ingimundarson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur, er þaulreyndur í slíkum leikjum. Hann segir í samtali við Víkurfréttir að undirbúningur liðsins fyrir leikinn verði svipaður og fyrir aðra leiki.
 
„Í svona leik er lykilatriði að njóta þess að spila og láta ekkert trufla sig frá því. Það er það sem mitt lið stefnir á,“ segir Sigurður.
 
Eins og áður segir hefur Sigurður mikla reynslu úr bikarúrslitaleikjum en hann er sigursælasti þjálfari kvennaliðs í bikarkeppni KKÍ. Alls hefur kvennalið Keflavíkur unnið bikarinn fimm sinnum undir stjórn Sigurðar (1993, 94, 95, 96, 2013). „Það er mun skemmtilegra að fara í svona leiki sem leikmaður, þá hefur maður engar áhyggjur og leikurinn er bara skemmtun. 
 
Það er aðeins meira stress að vera þjálfari.“ Sigurður hefur þrívegis stýrt karlaliði Keflavíkur til sigurs í þessari keppni – hann varð sjálfur margoft bikarmeistari sem leikmaður karlaliðsins.
 
Það gengur oft mikið á í leikhléum í svona leikjum og aðspurður segir Sigurður að það gæti stundum verið betra að henda út einum fimmaurabrandara í leikhléinu í stað þess að fara yfir flókin leikatriði.
 
„Vissulega lítur það oft þannig út að betra hefði verið að henda í einn góðan fimmaur. Ég geri það reyndar stundum, en þá er betra að það sé fyndið.“
 
Tónlistin er í veigamiklu hlutverki í aðdraganda bikarúrslitaleiksins og á meðan honum stendur. Sigurður hefur eina ósk hvað lagalistann varðar: „Ef ég fengi að ráða einu lagi þá myndi ég setja eitthvað hressandi með listamanninum JaRule“
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024