Lygilegar lokamínútur
Sturlaður endir – þrjú mörk Víðismanna í uppbótartíma tryggði þeim sigurinn
Einar Örn Andrésson er 23 ára miðvörður Víðis í Garði. Hann hefur verið á skotskónum í sumar og skorað fjögur mörk, þar af tvö í uppbótartíma þegar Víðir vann ótrúlega magnaðan sigur á KFK í þriðju deild. Víkurfréttir tóku viðtal við þennan „framliggjandi hafsent“ eftir leikinn ótrúlega en þess ber að geta að Einar Örn er markahæstur Víðismanna á Íslandsmótinu í ár.
„Ég er Keflvíkingur og gekk í gegnum alla yngri flokkana með Keflavík. Eysteinn [Hauksson] tók mig á bekkinn, í fyrsta sinn með meistaraflokki, á móti KR árið 2018. Árið eftir, 2019, var svo fyrsta árið mitt í meistaraflokki. Fór þá á láni til Víðis en svo var Ísak Óli [Ólafsson], jafnaldri minn, seldur út og þá vantaði Keflavík hafsent. Þeir náðu ekki að finna neinn og kölluðu mig til baka. Ég æfði með þeim en var alltaf á bekknum og fékk engin tækifæri.
Tímabilið eftir það fór ég á láni til Njarðvíkur, tók hálft tímabil þar áður en ég fór út í háskóla. Það var 2020, Covid-tímabilið.“
Einar tók hálft tímabil í Bandaríkjunum en hann var í eitt og hálft ár í skóla í Evansville í Indiana. Hann kom svo heim sumarið 2021 og lék aftur á láni með Víði Garði hálft tímabil. „Ég hef svo bara verið í Víði síðan. Ég fékk samning hjá Keflavík árið 2019 sem gilti í þrjú ár, út tímabilið 2021. Svo skipti ég yfir í Víði 2022.“
Ameríka í hnotskurn
Þessi tími í Bandaríkjunum, var hann ekki áhugaverður?
„Mjög áhugaverður,“ svarar Einar. „Grímur, einangrun og spila fótbolta, það var svolítið þannig. Við fengum að spila einn leik 2020. Það var innbyrðis leikur og ekki búið að koma upp eitt einasta Covid-tilfelli í liðinu – við vorum eina liðið sem var ekki búið að fá Covid.
Svo spiluðum við þennan innbyrðisleik og liðið hrundi. Það fengu bara allir Covid og ég fór í einhverja nítján daga í sóttkví, ég fékk ekki Covid.“
Árið 2021 fékk skólalið Einars að spila einn æfingaleik. „Það var á móti University of Kentucky, risaháskóli. Þvílík umgjörð og rosalega flottur skóli. Það var eiginlega öfug uppstilling í þeim leik, við byrjuðum með okkar aðallið en þeir með varaliðið og svo öfugt í lokin. Þannig að þarna fékk ég í andlitið einhvern sem var svo „draftaður“ í MLS.
Upphaflega ætlaði ég bara að taka eitt ár þarna úti en þjálfarinn vildi halda í mig, hann ætlaði að spila mér næsta tímabil. Ég tók þá í einhvern sumaráfanga til að hækka einkunnirnar og skólastyrkinn.
Svo kem ég aftur út og þá var hann ekkert búinn að láta mig vita að hann var búinn að „red shirt-a“ mig, þannig að ég má bara æfa en ekkert að spila. Ég tók ekkert allt of vel í það og þá trítlaði ég bara heim.
En þetta var ævintýri og maður eignaðist vini. Þetta var stórskemmtilegt og fyrir alla sem vilja fara út í nám þá er þetta bara geðveikt.“
Hann rifjar upp atvik eftir leik sem þeir léku í Tennessee. „Við vorum að keppa þarna í Tennessee á móti Belmont – og þetta er eitthvað vafasamt hverfi sem þessi skóli er í. Þegar við vorum búnir að keppa vorum við læstir í hálftíma inni í klefa eftir leik. Þá var skotárás í gangi hinum megin við götuna. Þannig að við vorum bara læstir þarna inni og fengum svo lögreglufylgd út í rútu og löggan fylgdi síðan rútunni frá vellinum. Þetta var einhvern veginn Ameríka í hnotskurn.“
Einar segir að þessi tími í Bandaríkjunum hafi við hörkuævintýri en litaðist svolítið af Covid. Hann byrjaði nám í hugbúnaðarverkfræði; „en út af Covid átti að leggja niður tölvunarfræðideildina þannig að þurfti að finna mér eitthvað annað og fór í byggingarverkfræði. Núna er ég að læra byggingatæknifræði í Háskóla Reykjavíkur og á eitt og hálft ár eftir þar.“
Þú hefur ekkert snúið aftur inn í þennan hugbúnaðargeira?
„Nei, það var ekkert svoleiðis. Ég finn mig mjög vel í byggingargeiranum, eins og ættin gefur til kynna,“ segir Einar en afi hans var Hjalti Guðmundsson sem rak byggingaverktakafyrirtækið Hjalti Guðmundsson ehf. og var lengi viðloðandi byggingariðnaðinn á Suðurnesjum. „Núna er ég hjá Sigga Kristófers [Mannvirki & malbik] á Iðavöllum,“ segir Einar sem ætlar að ljúka náminu og bætir við að honum lítist vel á að starfa við fagið í framtíðinni.
Réttur maður á réttum stað
Í síðustu viku léku Víðismenn gegn KFK á heimavelli þeirra síðarnefndu í Kópavogi. Það ótrúlega við þennan leik er að Víðismenn voru tveimur mörkum undir eftir níutíu mínútur en einhvern veginn tókst þeim að vinna leikinn.
Vindum okkur í þennan leik – þetta er með lygilegri sögum sem maður hefur heyrt, hvað gerðist eiginlega?
„Okkur vantaði mark og við breyttum um kerfi nokkrum mínútum fyrir leikslok, höfðum ekki verið að skapa neitt mikið fyrir það. Síðan segir Snorri [Már Jónsson], aðstoðarþjálfari, mér að fara fram og við leggjum þunga á þá, vinnum einhverjar hornspyrnur og fáum einhver færi.
Síðan kemur ein hornspyrnan inn í teig, Cristo [A. F. Da S. Martins] nær skallanum og þá var ég réttur maður á réttum stað og pota honum inn.
Við drífum okkur, sækjum boltann og þeir taka miðju. Þeir dúndra bara fram og við vinnun innkast. Ég skokka bara fram. Síðan er Paulo [Gratton] með hann hægra megin, neglir honum svo bara inn í og aftur, mínútu seinna, fæ ég boltann og negli í markið – með hægri meira að segja,“ segir Einar hlæjandi.
„Ég fagna náttúrulega, orðinn mjög sáttur með að ná jafntefli. Bessi [Jóhannsson] og Dani [Beneitez Fidalgo] fara að sækja boltann og þeir segja bara: „Common, við ætlum að sækja sigur!“
Dani var búinn að segja við mig í hálfleik að við gætum náð jafntefli á sterkum útivelli en hann segir bara: „Hey, við ætlum að vinna.“ Eitthvað sem hann fann á sér.
Síðan fáum við hornspyrnu og þeir félagarnar [Dani og Paulo] tala eitthvað saman, maður skildi auðvitað ekkert hvað þeir voru að segja. Paolo tók hornið, sendir á Dani út við vítateig og við Bessi tilbúnir á fjærstönginni. Dani sendir á fjær og við Bessi hefðum þurft að fleygja okkur á stöngina, við áttum ekki séns í þetta. Við héldum að þetta væri sending á okkur en það var snúningur á boltanum og svo bara fýkur hann inn.“
Þetta er fáheyrt en mörkin skoruðu Víðismenn á þriðju, fjórðu og sjöttu mínútu uppbótartíma.
„Þetta var mjög vont. Þú veist, maður finnur alveg til með þeim – en þetta var rosalegt.“
Þú segir að þið hafið ekki verið búnir að skapa neitt sérstaklega, voru þeir búnir að vera betri aðilinn í leiknum?
„Nei, þetta var mikið hnoð fannst mér. Þeir komust yfir 1:0 og lögðust svo mikið til baka. Þeir voru voða lítið að gera með boltann og svo skoruðu þeir aftur á fyrstu mínútu í seinni hálfleik.
Við vorum í einhverju smá veseni en svo breyttum við um kerfi. Þeir voru búnir að leggjast voðalega langt aftur fannst mér, sem var fínt því þá gátum við farið að negla honum inn í. Við Bessi vorum báðir komnir fram, tveir turnar í teignum, og þá skapast þessi hætta – síðan náðum við þessum mörkum inn.“
Trúði þessu ekki
„Þegar við vinnum hornið í stöðunni 2:2 þá komumst við í rosalega góða stöðu til að gefa hann fyrir, áður en við fáum hornið. Bessi fór niður á hné og bara öskraði: „Nei!“ Alveg brjálaður.
Svo tókum við hornið og skorum. Ég bara trúði þessu ekki, ég er bara að labba til baka en þeir hlaupa allir til að fagna. Ég horfi á bekkinn hjá hinum þar sem einhver tekur vatnstöskuna þeirra og skella henni í jörðina, bekkurinn okkar alveg snælduóður og þarna var þetta búið. Alvöru dramatík eins og hún gerist best – þeir tóku miðju og dómarinn flautaði leikinn af.“
En hvaða stöðu leikurðu?
„Ég er hafsent,“ segir Einar. „Og búinn að skora tvær tvennur núna í tveimur leikjum.“
Framliggjandi hafsent?
„Já, það má eiginlega segja það,“ segir hann og hlær. „Ekki voru mörkin mörg fyrir – ég var bara kominn með eitt mark á ferlinum. Það var í einhverju 3:2 tapi minnir mig [innsk. blm.: Einar skoraði á 78. mín. í leik Víðis og Elliða sem fór 2:3, 10. sept. 2022].“
Það er hörð barátta í þriðju deild og Víðir situr sem stendur í þriðja sæti með þrettán stig en liðin í sætum tvö til fimm eru öll jöfn að stigum. Augnablik er efst með fimmtán stig.
Við spyrjum Einar því að lokum hvort hann hafi trú á því að Víðismönnum takist að tryggja sér sæti í annarri deild á næsta ári.
„Það er markmiðið. Við unnum fyrsta leik en töpuðum fyrir Kára í annarri umferð, síðan þá höfum við unnið alla leiki – og þessi síðasti sigur sýnir svart á hvítu að okkur mun takast það ef við höldum áfram að hafa trú á okkur sjálfum.“
Myndskeið af mörkum Víðis í uppbótartíma má sjá í spilaranum hér að neðan.