Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Lukkuleg í Lundi
Daníel og Linda eru nú komin heim á ný.
Fimmtudagur 27. desember 2012 kl. 08:00

Lukkuleg í Lundi

Njarðvíkingurinn Daníel Guðni Guðmundsson flutti út til Svíþjóðar í lok sumars árið 2011 ásamt kærustu sinni, Grindavíkurmærinni Lindu Ósk Schmidt. Hann ákvað að fara í nám í háskólabænum Lundi en þau skötuhjú voru spennt fyrir því að búa erlendis og drekka í sig aðra menningu. Nú eru þau Daníel og Linda á heimleið þar sem námi er lokið að sinni en auk þess er von á erfingja innan skamms hjá parinu. Víkurfréttir náðu tali af Daníel á dögunum og spurðu út í lífið í Svíaríki.

Daníel stundar mastersnám í íþróttasálfræði við Háskólann í Lundi á meðan Linda hefur stundað sænskunám og annast þrjú börn fyrir íslenska fjölskyldu. Daníel segist lengi hafa haft áhuga á sálfræðilega þættinum í íþróttum og eftir að hann útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík úr íþróttafræði þá sá hann að hann vildi leggja þetta fyrir sig í framtíðinni. Í náminu er farið djúpt í kenningar sem og í praktíska þætti sem koma sér vel í framtíðinni að sögn Daníels, bæði sem leikmaður, þjálfari eða sem ráðgjafi í íþróttasálfræði (íþróttasálfræðingur). Daníel er nú einmitt að ljúka verknámi sínu þar sem hann hefur unnið mikið með ungum körfuknattleiksmönnum sem eru að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki. „Meðal annars hef ég verið að vinna með markmiðssetningu, slökunartækni og ímyndunarþjálfun en þetta hefur verið mjög lærdómsríkt ferli,“ segir Daníel en fljótlega mun athygli Daníels beinast að lokaritgerð sem hann á að skila í vor og komandi foreldrahlutverki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í mínu besta formi

Daníel hefur alla tíð verið liðtækur körfuboltamaður og æfði upp alla yngri flokka með Njarðvíkingum. Hann lék svo með Breiðablik og Stjörnunni meðan hann stundaði nám í Reykjavík. Hann spilar nú með IK Eos í næstefstu deild í Svíþjóð. Þeirri deild er skipt í tvo riðla, norður og suður, en eins og er þá er lið Daníels á toppi suðurriðilsins. Daníel æfir nær alla daga vikunnar og segir hann þetta vera kærkomið tækifæri til að spila körfubolta í fínum gæðaflokki samhliða námi. Daníel ætlaði sér að spila með liðinu í fyrra en þá glímdi hann við leiðinleg meiðsli í baki. Nú hefur hann jafnað sig og segist aldrei hafa verið í betra formi. „Þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir, svo ég hlakka bara til framhaldsins.“

Daníel hefur nú samið við Grindvíkinga og mun leika með þeim í Dominos-deild karla út tímabilið a.m.k.

Stórt Íslendingasamfélag

Einhver liðin í deildinni eru með atvinnumenn eða hálf-atvinnumenn innanborðs og svo eru hin með leikmenn sem eru einungis áhugamenn. „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að bera hana saman við deildina heima en það eru nokkur lið í deildinni minni sem gætu átt heima í Domino's deildinni, mitt lið þar með talið. Við fengum m.a. tvo leikmenn til okkar sem hafa leikið með unglingalandsliðum Svía og voru í Basketligan (efsta deildin í Svíþjóð). Við  vorum með fínan hóp fyrir svo við erum nokkuð sterkir í vetur.“

Lundur er huggulegur bær staðsettur sunnarlega í Svíþjóð. Þetta er lítill háskólabær en það eru um það bil 50 þúsund nemendur sem eru búsettir í samfélaginu. „Ef maður vill kíkja í stærri borgir þá fer maður bara yfir til Malmö eða Kaupmannahafnar þar sem maður getur hitt góða vini sem eru búsettir þar.“ Í Lundi er stórt samfélag Íslendinga og segir Daníel að það sé vissulega notalegt að geta leitað til Íslendinga ef eitthvað bjátar á.

Þjálfarinn talar bara sænsku

Hvernig hefur annars gengið að læra tungumálið og hvernig eru frændur okkar Svíar?
„Þeir Svíar sem ég er að umgangast eru helst í körfunni og í skólanum auðvitað. Þeir virka frekar vel á mig og taka vel á móti manni hvert sem maður fer, það í rauninni setur Svíþjóð ofarlega á listann hvað varðar staði sem maður gæti hugsað sér að búa á utan Íslands í framtíðinni,“ segir Daníel en hvað varðar sænskuna þá segist hann vel geta reddað sér. „Þjálfarinn minn tók þann pól í hæðina að tala bara sænsku á æfingum svo það hefur hjálpað mér að læra tungumálið betur. Svo er maður með smá bakgrunn úr dönskunni frá Guðrúnu dönsku í Njarðvíkurskóla og Rósu í FS, þannig að það hefur auðveldað manni að lesa og skilja sænskuna.“


Daníel og Linda unnusta hans eru á heimleið fljótlega enda er von á erfingja á nýju ári. „Við eigum von á barni í febrúar svo við ætlum að flytja aftur á klakann í desember og ég mun skrifa ritgerðina í rólegheitunum heima. Við kunnum rosalega vel við okkur hérna í Svíþjóð og það væri spennandi að búa í Stokkhólmi, en sú borg er frábær, það sem maður hefur kynnst af henni. Útlöndin heilla yfirleitt og ef það býðst eitthvað spennandi fyrir okkur erlendis í framtíðinni þá lokar maður ekkert á það,“ segir Daníel að lokum.