Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Lukku-klukka Kristjáns
Fimmtudagur 22. ágúst 2013 kl. 12:05

Lukku-klukka Kristjáns

Keflvíkingar halda til Eyja í kvöld

Þjálfari Pepsi deildarliðs Keflavíkur karla, Kristján Guðmundsson, hefur að undanförnu notast við forláta skeiðklukku á hliðarlínunni. Síðan Kristján tók við liðinu og stýrði því til sigurs á Akranesi í fyrsta leik, hefur skeiðklukkan verið í hendi Kristjáns. Hann segist kunna illa við það að snúa sér við og horfa á stigatöfluna sem hangir fyrir aftan varamannaskýli Nettóvallarins. Hann gengur heldur ekki með úr að staðaldri og því var skeiðklukkan fyrir valinu.

„Ég vil vita hvernig tímanum líður í þessu. Stundum líður hann ansi hratt, stundum líka hægt. Svo finnst mér bara feikilega óþæginlegt að líta af vellinum og aftur fyrir mig á klukkuna.“ Kristján segist einfaldlega setja klukkuna í gang þegar flautað er til leiks og svo stoppar hann klukkuna í hálfleik. „Ég tek tímann á hálfleiknum líka, ég veit nákvæmlega hvað hálfleikurinn er langur. Dómarar sjá líka að ég er að taka tímann og að fylgjast með. Það setur pressu á þá.“ Krisján segist ekki vera hjátrúarfullur en eftir sigur í fyrsta leik með klukkunni, þá ákvað hann að halda í hana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Næstu tveir leikir Keflvíkingar eru á útivelli. Ekki hefur gengið að fylgja eftir sigurleikjum í sumar með sigri í næsta leik á eftir, en sérfræðingarnir í Pepsi mörkunum hafa það á orði að ef Kristján sigri leik, þá tapi hann þeim næsta. „Það er eitthvað sem þeir byrjuðu með á síðasta ári. Þeir virðast þó líta fram hjá tölfræðinni og uppfæra bara skiltið hjá sér,“ segir Kristján.

Kristján segir að eftir sigurleiki Keflvíkinga virðist vera sem svo að framlag þess leiks eigi að duga fram í næsta leik. Kristján heldur því fram að svoleiðis virki fótboltinn ekki. Menn verði að undirbúa sig vel fyrir hvern leik. Næsti leikur er í Vestmannaeyjum í kvöld klukkan 18:00 og þar skal allt gefið til sigurs. „Það er skemmtilegt að ferðast með liðinu og maður verður að líta það jákvæðum augum. Mér finnst gaman að fara í þessi lengri ferðalög og við reynum að búa til stemningu í þessum ferðum út á landsbyggðina.“ Kristján segist jafnvel stundum taka upp á því að semja spurningakeppnir og reka piltana á gat.

Næsti heimaleikur Keflvíkinga er gegn Stjörnunni þann 1. september næstkomandi.