Luka Kostic skrifar undir nýjan samning við Grindavík
Luka Kostic þjálfar Grindavík næstu tvö árin en skrifað var undir samning skömmu fyrir glæsilegt lokahóf knattspyrnudeildar á laugardagskvöldið. Luka Kostic tók við Grindavíkurliðinu eftir þrjár umferðir í sumar þegar liðið lá á botninum án stiga. Grindavík tókst að halda sæti sínu í deildinni og varð í 9. sæti.
Samningurinn við Luka Kostic gildir út árið 2011. Þegar hann tók við Grindavík í sumar var gerður þriggja ára rammasamningur með uppsagnarákvæði í haust. Báðir aðilar voru sammála um að halda samstarfinu áfram og skrifa undir nýjan samning enda samstarfið gengið vel. Nú er verið að skoða leikmannamál Grindavíkur og verða nokkrar breytingar á liðinu sem miða að því að Grindavík ætlar sér stærri hluti á komandi árum.
Mynd: F.v. Þorsteinn Gunnarsson formaður knattspyrnudeildar, Luka Kostic þjálfari, Jónas Þórhallsson varaformaður og Ingvar Guðjónsson framkvæmdastjóri, eftir undirskriftina síðasta laugardag.