Lovísa í sama körfuboltabæ og pabbi - fer með bænir 11 sinnum á dag
Lovísa Falsdóttir, leikmaður kvennaliðs Keflavíkur lét langþráðan draum rætast nú fyrir skömmu og hélt til Bandaríkjanna í nám. Lovísa er nánar tiltekið í Pennsilvaníu ríki í bænum Hershey og fetar í fótspor Fals Harðarsonar, föður síns því hann var þarna á sínum náms- og körfuboltaárum.
„Ég er hérna í Hershey sem er hálftíma keyrsla frá skólanum mínum sem er í Camp Hill og heitir Trinity High School, lítill kaþólskur skóli með mjög gott íþróttaprógram,“ sagði Lovísa í viðtali við karfan.is.
En hvernig stóð á því að Lovísa endaði í Pennsilvania?
„Ég og pabbi erum búin að vera að vinna að þessu í meira en ár en upphaflega ætlaði ég að reyna að komast út fyrir ári síðan en það gekk ekki upp. Ástæðan fyrir að við leituðum í Pennsilvania er útaf því að pabbi fór í menntaskóla í sama bæ seint á síðustu öld og hann bjó hjá frænku okkar þar og nú á ég heima hjá dóttur hennar sem var í sama bekk og pabbi í Camp Hill High School.
Karfan hérna lofar mjög góðu, mjög öflugt þjálfarateymi og allt á hærra plani en heima er hægt að segja. Æfum bara 2-3 í viku inni í íþróttahúsinu en þess á milli hittum við annan þjálfara sem þjálfar okkur einstaklingslega í snerpu, sprettum og alls konar þolæfingum tvisvar sinnum í viku. Við hættum þeim æfingum viku fyrir tímabilið sem byrjar 15. nóvember.
Við spiluðum fyrsta æfingaleikinn okkar síðasta mánudag á móti liði sem er í deild með stærri skólum. Það var bara æfing fyrir bæði lið til að fara yfir kerfi vetrarins og pressur og svoleiðis en þá fékk ég betri mynd af gæði leikmannana í liðinu og ég er mjög spennt að byrja tímabilið. Ég fékk að byrja þann leik en tel líklegt að ég verði svona 6.-7. maður þegar tímabilið byrjar því það voru nokkrar af stelpunum nýkomnar úr skólaferðalagi og höfðu misst af síðustu æfingum og voru því ekki með allt á hreinu. En það kemur ekkert annað til greina fyrir mig að vera komin í byrjunarliðið fyrir nóvemberlok í alvöru leikjunum“, sagði Lovísa.
Lovísa heldur úti bloggi og hér kemur stuttur en skemmtilegur úrdráttur:
„Svo ég segi ykkur svolítið frá skólanum þá er ég í u.þ.b. 550 manna (frá 9.-12. bekk) kaþólskum einkaskóla en þó að hann sé kaþólskur þá er fólk af allskonar trúarbrögðum sem ganga í hann. Ég er ein af 32 skiptinemum í skólanum en við erum bara tvær frá Evrópu, allir hinir eru frá Asíu. Ég er á senior ári sem þýðir að ég útskrifast úr skólanum eftir þetta ár ásamt 160 krökkum sem eru í árgangnum.
Það er mjög mikið öðruvísi við skólann minn en ég hef þurft að venjast heima til dæmis:
- Ég verð að vera í búningnum alla daga og ræð ekki neinu um það ekki einu sinni hvernig sokkum ég er í.
- Það er enginn nestistími, bara venjulegir tímar þangað til klukkan 11:15 þegar hádegismaturinn er - þetta er að gera mig brjálaða!
- Það er staðið upp og farið með bænir 11 sinnum á dag, fyrir alla níu tímana og bæn fyrir matinn og áður en við förum heim.
- Ég þarf að klára 20 klukkutíma í '„service hours“' á árinu, sem þýðir að ég þurfi að fara sem sjálfboðaliði í samtals 20 tíma út um allt að gera alls konar hluti..
Hægt er að fylgjast með Lovísu í bloggi hennar,
www.lovisaiusa.blogspot.com