Loksins sigruðu Njarðvíkingar
Eftir átta leiki án sigurs, náðu Njarðvíkingar loks að krækja sér í þrjú stig í 2. deild karla í fótbolta. Það gerðu þeir með því að leggja Gróttu á heimavelli sínum 4-2.
Njarðvíkingar byrjuðu með látum en þeir skoruðu eftir aðeins tólf sekúndur, en þar var að verki Aron Freyr Róbertsson. Hann var svo aftur á ferðinni eftir hálftíma leik og staðan orðin 2-0. Gísli Freyr Ragnarsson bætti síðan við þriðja markinu á 43. mínútu og Njarðvíkingar því farnir að sjá fram á sigur. Ekki varð útlitið dekkra þegar Björn Axel Guðjónsson skoraði fjórða mark Njarðvíkinga í upphafi síðari hálfleiks.
Gróttumenn náðu að minnka muninn undir lokin með tveimur mörkum en sigur Njarðvíkinga var aldrei í hættu. Þeir fögnuðu innilega í leikslok enda kærkominn sigur í höfn.