Loks sigur eftir 11 tapleiki í röð
Gengi Suðurnesjafólks í háskólaboltanum
Kristinn Pálsson skoraði 9 stig þegar Marist háskólinn sem Njarðvíkingurinn ungi leikur með, batt enda á 11 leikja tapleikjahrinu með 79:73 sigri gegn Siena. Kristinn skoraði úr þremur af fimm þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Liðið á svo leik aftur í kvöld gegn Monmouth í bandaríska háskólakörfuboltanum. Liðið hefur aðeins unnið fimm leiki en tapað 17.
Njarðvíkingurinn Elvar Friðriksson hélt uppteknum hætti og gaf 11 stoðsendingar í sigurleik gegn Palm Beach Atlantic skólanum, 92:116. Elvar skoraði aðeins 3 stig í leiknum. Elvar og félagar leika á morgun gegn Florida tech. Lið Elvars hefur verið sigursælt, sigrað í 17 leikjum og tapað þremur.
Sara Rún Hinriksdóttir úr Keflavík skoraði 6 stig á 12 mínútum þegar lið hennar Canisius tapaði gegn Monmouth 79:75. Liðið á leik komandi föstudag gegn Rider skólanum. Lið Söru hefur unnið 9 leiki og tapað 14 í vetur.