Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Lokaatlagan að EM 50 lágmörkum
Fimmtudagur 24. janúar 2008 kl. 13:30

Lokaatlagan að EM 50 lágmörkum

Þrír sundmenn frá ÍRB halda í dag utan til Lúxemborgar til þátttöku á Euro Meet sundmótinu en mótið er það síðasta sem hægt verður að ná lágmörkum fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í Eindhoven í mars. Sundmennirnir eru þau Erla Dögg Haraldsdóttir, Árni Már Árnason og Birkir Már Jónsson. Um síðustu helgi fór Reykjavík International íþróttamótið fram í höfuðborginni þar sem keppt var í sundi í innilauginni í Laugardal.

 

Flestir elstu sundmenn ÍRB tóku þátt en aðeins einn sundmaður náði lágmörkum inn á stórmót. Það gerði Soffía Klemenzdóttir í 100m flugsundi er hún synti á tímanum 1.06.99 mín. og mun hún því taka þátt í CIJ LUX mótinu með unglingalandsliði Íslands í apríl en það mót er Evrópumeistaramót unglinga.  

 

Erla Dögg Haraldsdóttir náði ekki Ólympíulágmarkinu í 200m fjórsundi en hún kom í mark á tímanum 2.22.81 mín. og hafnaði í 1. sæti en lágmarkið til Peking er 2.19.97. Þá hlaut Lilja Ingimarsdóttir gull í 200m bringusundi 14 ára og yngri er hún kom í mark á tímanum 2.55.27 mín. Árni Már Árnason vann einnig til gullverðlauna er hann synti á tímanum 53,08 sek. í 100m skriðsundi en Ólympíulágmarkið í greininni er 50,90 sek. Steindór Gunnarsson yfirþjálfari sundliðs ÍRB kvaðst nokkuð sáttur með árangurinn síðustu helgi og mundi hann ekki til þess að kvenkyns sundmaður hefði náð lágmörkum fyrir Evrópumeistaramót unglinga í flugsundi síðustu ár eins og Soffía gerði um helgina.

 

VF-Mynd/ [email protected]Árni Már Árnason var ánægður með gullið sitt fyrir besta tímann í 100m skriðsundi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024