Logi sá um meistarana
Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson fór á kostum þegar Solna Vikings tók á móti meisturum Sundsvall með þá Jakob Sigurðsson, Pavel Ermolinski og Hlyn Bæringsson í fararbroddi í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Solna vann leikinn 78-77 þar sem Logi skoraði 28 stig og var hreint magnaður undir lokin.
Logi skoraði 15 stig af þeim 22 stigum sem lið hans skoraði í fjórða leikhluta og þar á meðal úrslitakörfu leiksins.