Logi og félagar með sigur
Logi Gunnarsson og félagar hans í finnska körfuknattleiksliðinu ToPo unnu í gærkvöldi Kouvot 76-83 og eru þar með komnir í þriðja sæti deildarinnar en það eru 5 umferðir eftir af deildarkeppninni. Þeir eru jafnir liðunum í fjórða og fimmta sæti en hafa betur á innbyrðis viðureignum. Logi gerði 12 stig á 24 mínútum í gær en hann er að koma til baka eftir meiðsli aftan í læri.
Logi lenti í því þegar hann kom til Finnlands eftir jólafrí að veikjast illa, fékk í lungun og þegar hann var rétt búinn að ná sér af veikindunum lenti hann í þessum erfiðu meiðslum aftan í læri. Kappinn er aftur á móti að komast í gírinn aftur og liðið unnið báða leikina síðan hann snéri aftur. ToPo stendur í harðri baráttu við tvö lið um þriðja sætið og eru með undanförnum leikjum komnir í góða stöðu og eiga nú fínan séns á að halda þriðja sætinu í deildinni en eins og áður sagði eru fimm umferðir eftir.