Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Logi og Fannar með körfuboltanámskeið
Föstudagur 11. júní 2004 kl. 14:42

Logi og Fannar með körfuboltanámskeið

Körfuknattleikskapparnir Logi Gunnarsson og Fannar Ólafsson munu standa fyrir námskeiði fyrir upprennandi körfuknattleiksstjörnur á aldrinum 9-18 ára í næstu viku.

Við förum í þessi undirstöðuatriði sem krakkar vilja oft gleyma því það er svo gaman að spila“, segir Logi. „ Þetta eru hlutir eins og drippl og annað sem við erum enn að æfa í dag þrátt fyrir að við séum komnir á þetta plan í boltanum. Við reynum að prenta það inn í krakkana að þau verða líka að æfa sig sjálf. Það er það sem menn verða að gera ef menn vilja ná langt, æfa sig extra í þessum tækniatriðum“.

Fannar bætir við að nokkrir góðir gestir láti sjá sig. „Við höfum fengið nokkra góða gestaþjálfara. Siggi Ingimundar og Brenton Birmingham ætla að koma og Páll Axel, besti maður deildarinnar síðast, ætlar líka að kíkja á okkur“.

Námskeiðið, sem fer fram í Íþróttahúsinu við Sunnubraut, hefst á mánudaginn og er fram á miðvikudag. Það stendur yfir frá klukkan eitt til sex, yngri hópurinn frá eitt til þrjú og sá eldri frá fjögur til sex. Skipt er í flokka eftir getu.

„Námskeiðið verður þó ekki tómar æfingar og kennsla“, segir Fannar. „Auðvitað verður líka spilað og svona því að aðalatriðið er að hafa gaman að þessu“.

Það er annars að frétta af þeim félögum að Logi er óðum að ná sér eftir erfið axlarmeiðsl sem riðluðu fyrir honum öllu síðasta tímabili og býst við að vera kominn í gott form áður en leiktíðin hefst næsta haust.

Fannar er hins vegar að reyna fyrir sér í Evrópu og vonast til að komast á samning hjá liði í stærri deildunum. „Ég ræð náttúrulega minnstu um það hvert ég fer, en ég er með með umboðsmann til að sjá um þesa hluti. Hann segir að ég geti alveg staðið mig, en það er alltaf erfitt að koma frá Íslandi þar sem deildin hér er ekki hátt skrifuð.“

Námskeiðið er haldið í samstarfi við KKÍ og fleiri aðila og geta áhugasamir skráð sig á fyrsta degi námskeiðsins eða með því að senda póst á netfangið [email protected].

VF-myndir/Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024