Logi og Elvar með til Austurríkis
Í gærkvöldi lagði landslið karla í körfubolta af stað til Austurríkis þar sem strákarnir okkar munu taka þátt í sterku æfingamóti ásamt heimamönnum, Póllandi og Slóveníu. Mótið verður leikið dagana 12.-14. ágúst en öll liðin undirbúa sig fyrir komandi átök í undankeppni EM, EuroBasket 2017. Heimaleikir Íslands verða leiknir 31. ágúst gegn Sviss, 14. september gegn Kýpur og 17. september gegn Belgíu.
Suðurnesjamennirnir Logi Gunnarsson og Elvar Már Friðriksson eru með í för. Alls fóru 14 leikmenn af 16 í æfingahóp út á mótið ásamt þjálfurum. Aðrir leikmenn í æfingahópnum eru Darri Hilmarsson og Grindvíkingurinn Ólafur Ólafsson sem munu bætast í æfingahópinn að nýju eftir mótið.