Logi meiddist í tapleik
Logi Gunnarsson meiddist í leik ToPo og KTP Basket á föstudagskvöld en KTP fór með stórsigur af hólmi í leiknum 108-77. Logi komst ekki á blað í stigaskorinu þrátt fyrir að hafa leikið 19 mínútur í leiknum en hann meiddist á læri.Logi fór í skoðun í gær þar sem í ljós kom að meiðslin eru ekki jafn alvarleg og í fyrstu var talið. Ráðgert er að Logi muni æfa aftur á morgun, mánudag, með ToPo sem er sem fyrr í 5. sæti finnsku úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik.
Næsti leikur ToPo er á miðvikudag gen Namika Lahti sem er í 3. sæti deildarinnar.








