Logi með skotsýningu í Njarðvík
Skoraði 41 stig í öruggum sigri
Njarðvíkingar áttu ekki í teljandi vandræðum með Hauka þegar liðin áttust við í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Njarðvíkingar unnu örugglega 105-83, í leik þar sem Logi Gunnarsson fór mikinn. Logi skoraði alls 41 stig í leiknum. Logi hitti ótrúlega vel í leiknum en hann skoraði úr 7 af 11 þriggja stiga skotum sínum. Hann hitti alls úr 15 af 26 skotum sínum og úr öllum vítaskotum sínum í leiknum.
Í fjórða leikhluta setti hann setti niður 7/10 í skotum og þar af 4/5 í þristum. Elvar Már Friðriksson hafði frekar hægt um sig, ef miðað er við Loga, en hann skoraði þó 24 stig.
Eftir leikinn eru Njarðvíkingar með 10 stig í þriðja sæti deildarinnar.
Njarðvík-Haukar 105-83 (26-23, 22-20, 24-20, 33-20)
Njarðvík: Logi Gunnarsson 41/4 fráköst, Elvar Már Friðriksson 24/4 fráköst/11 stoðsendingar, Nigel Moore 15/11 fráköst/5 stoðsendingar, Óli Ragnar Alexandersson 6, Ágúst Orrason 5, Egill Jónasson 4, Hjörtur Hrafn Einarsson 4, Ólafur Helgi Jónsson 3, Magnús Már Traustason 2, Friðrik E. Stefánsson 1/7 fráköst, Halldór Örn Halldórsson 0, Brynjar Þór Guðnason 0.