Logi með flautukörfu og Grindavík vann í Þorlákshöfn
Logi Gunnarsson, elsti leikmaðurinn í Domino’s deild karla í körfubolta tryggði Njarðvíkingum sigur á síðustu sekúndunni á Sauðárkróki gegn Tindastóli og Grindvíkingar unnu annan leikinn í röð eftir að deildin hófst að nýju. Framlenging var í báðum leikjunum.
Staðan eftir fjóra leikhluta í Þorlákshöfn var 85-85 en gestirnir úr Grindavík leiddu með 14 stigum eftir þrjá leikhluta. Heimamenn jöfnuðu hins vegar í þeim fjórða og því þurfti að framlengja. Þar voru Grindvíkingar sterkari og innsigluðu tveggja stiga sigur 92-94. Þeir hafa unnið fyrstu þrjá leikina eftir að deildin fór í gang að nýju. Hinn eistneski Joonas Jarvelainen var stigahæstur Grindvíkingameð 19 stig og 6 fráköst.
Það var mikil spenna á Króknum. Njarðvíkingar og Tindastólsmenn skiptust á að hafa forystu allan tímann og eftir venjulegan leiktíma var jafnt 92-92. Jafnt var á með liðunum í framlengingunni en allt leit út fyrir að Stólarnir væru að tryggja sér sigur þegar þeir skoruðu þegar rétt rúm sekúnda var til leiksloka. Njarðvíkingar tóku tíma og auðvitað fékk Logi Gunnarsson boltann og hann sendi hann rakleitt í körfuna fyrir utan þriggja stiga línuna og tryggði þrjú stig í rútuna heim til Njarðvíkur. Logi skoraði 17 stig en Mario Matasovic og Jón Arnór Sverrisson voru bestir í Njarðvíkurliðinu og skoruðu báðir 25 stig. Jón Arnór var atkvæðamikill í framlengingunni og hans besti leikur með Njarðvík.