Logi mætir í titilvörnina á heimavelli
„Ég reyni að mæta í þetta mót eins og önnur mót, ekki hugsa of mikið um titilvörnina. Sveiflan er fín og ég er til í slaginn. Hólmsvöllur er í frábæru standi þar sem ég þekki hverja þúfu,“ sagði Logi Sigurðsson Íslandsmeistari í golfi 2023 en hann mun hefja titilvörn sína á fimmtudagsmorgun þegar Íslandsmótið í golfi 2024 hefst, á sextugsafmælisári Golfklúbbs Suðurnesja.
Allir bestu karl- og kvenkylfingar landsins mæta í Leiruna til að berjast um stærsta titil ársins. Suðurnesjakylfingurinn Logi Sigurðsson á titil að verja og fær heimavöllinn til þess. GS fagnar 60 ára afmæli á árinu og á þeim árum hafa margir Íslandsmeistarar í karla- og kvennaflokki komið til GS.
Þorbjörn Kjærbo sigraði fyrst 1968 og vann þrjá í röð. Næsti titill kom ekki fyrr en 1983 en þá sigraði Gylfi Kristinsson. Sigurður Sigurðsson vann næst 1988 og Örn Ævar Hjartarson vann síðan 2001. Logi, sem er sonur Sigurðar Sigurðssonar, kom svo eftir rúmlega tuttugu ára bið, með titil í fyrra.
Hjá kvenfólkinu ruddi Guðfinna Sigurþórsdóttir brautina í íslensku kvennagolfi þegar hún vann í þrígang á fjórum árum, fyrst 1967. Dóttir hennar, Karen Sævarsdóttir varð Íslandsmeistari átta ár í röð frá árinu 1989 en þá var mótið haldið í Leirunni. Það met, að sigra átta ár í röð verður seint slegið. Hún keppti ekki næstu árin því hún reyndi fyrir sér í atvinnumennsku í Bandaríkjunum frá árinu 1997.
Golfklúbbur Suðurnesja er eini klúbbur landsins sem getur státað sig af því að eiga feðga og mæðgur sem Íslandsmeistara.
Keppendur á Íslandsmótinu í Leiru eru 153, 57 konur sem er met og 96 karlar en yfir 200 manns skráðu sig til leiks. Um fjórðungur umsækjenda komst ekki í mótið en þeir kylfingar sem voru með lægstu forgjöfina komust inn.