Logi Gunnarsson: Fer til reynslu í Ungverjalandi
Forsvarsmenn ungverska körfuknattleiksliðsins Nyiregyhazi hafa fylgst vel með landsliðsmanninum Loga Gunnarssyni í sumar og hafa boðið honum að koma til reynslu hjá félaginu í tvær vikur. Logi heldur beina leið til Ungverjalands frá Austurríki en íslenska landsliðið heldur á morgun til Austurríkis og leikur gegn heimamönnum á laugardag.
„Ég mun semja við félagið ef allt gengur eftir og ég lít á þetta sem gott skref upp á við á mínum ferli,“ sagði Logi sem lék í þýsku 2. deildinni á síðustu leiktíð með Bayreuth. Logi er að fara til reynslu hjá Nyiregyhazi sem lauk keppni í 11. sæti efstu deildar þar í landi, liðið lék 26 leiki, tapaði 15 og vann 11.
„Ungverska deildin er mun sterkari en önnur deildin í Þýskalandi og þetta er það sem ég vil halda áfram að gera, taka skref upp á við,“ sagði Logi sem setti niður 23 stig gegn Lúxemburg í Sláturhúsinu í gærkvöldi.
Spænska liðið Huelva, sem leikur í næst efstu deild á Spáni, hefur einnig sýnt Loga áhuga og honum býðst einnig að fara þangað til reynslu en Logi mun fyrst halda til Ungverjalands og kanna þar aðstæður.