Logi ekki viss með næsta skref
Körfuknattleiksmaðurinn Logi Gunnarsson á að baki farsælan feril sem atvinnumaður í íþóttinni en nú fyrir skömmu lauk lið hans í sænsku úrvalsdeildinni keppni gegn liði Sodertalje í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Tímabilið var því ekki eins og Logi og liðsfélagar hans í Solna Vikings óskuðu sér. „Okkur gekk vel á móti þessu liði í deildinni í vetur en eitthvað fór úrskeiðis í úrslitakeppninni,“ sagði Logi í spjalli við Víkurfréttir en persónulega gekk Loga vel á tímabilinu sem er að ljúka um þessar mundir. Logi skoraði 16 stig að meðaltali og var að bæta sig í nokkrum tölfræðiþáttum. Logi skoraði reyndar meira að meðaltali í fyrra eða 17 stig, en þá var hann í aðeins stærra sóknarhlutverki. Hann var m.a. að bæta bæði tveggjastiga og vítanýtingu sína á þessu tímabili.
Tveggja ára samningur Loga við Solna rennur út núna í maí og það er óvíst með framhaldið hjá honum eins og er. „Klúbburinn var ánægður með mig bæði árin en þeir ætla að bíða og sjá hvernig fjárhagsstaðan verður fyrir næsta tímabil og hver þjálfar liðið. Ég er sjálfur alveg opinn fyrir því að kíkja á aðra möguleika hér í Svíþjóð og í öðrum löndum. Maður þarf oft að bíða í einhvern tíma í körfunni eftir því hvar maður muni spila og ég er í rauninni bara orðinn vanur því. Það var reyndar gott að hafa gert tveggja ára samning hér og þurfti ég því ekki að hugsa um þetta síðasta sumar og vonandi get ég gert tveggja ára samning þar sem ég verð næst,“ segir Logi sem verður 31 árs síðar á árinu.
Logi er því kominn í sumarfrí en hann er vanur að nýta sumarið í að æfa af krafti. „Ég mun fara í gott frí með fjölskyldunni og svo kem ég heim og byrja að æfa og undirbúa mig fyrir næsta tímabil og komandi verkefni með landsliðinu,“ en spennandi verkefni eru framundan hjá strákunum í landsliðinu.
Landsliðsverkefnið leggst rosalega vel í Loga og er hann spenntur að fá að mæta nokkrum af bestu liðum Evrópu. „Það verður mikil upplifun að fá að spila við t.d. Serbíu í Belgrad en þeir eru eitt af þremur bestu liðum heims, einnig verður gaman að fara til Ísrael og spila við þá en þeir eru risar í evrópskum körfubolta,“ segir Logi.
Logi sem er Njarðvíkingur segist hafa fylgst með ungu strákunum frá hans heimabæ í vetur og er hann ánægður með árangur þeirra. „Ég hef fylgst vel með Njarðvíkurstrákunum í vetur og er ánægður með þessa stráka. Þeir eru að uppskera eftir alla vinnuna sem þeir hafa lagt í síðustu sumur,“ en Logi hefur sjálfur lagt það í vana sinn að æfa með þessum ungu strákum þegar hann er staddur á Íslandi. „Ég mun æfa eitthvað með þeim í sumar og það verður bara gaman sjá hvort maður geti haldið í við þessa ungu punga,“ segir Logi léttur.
Að lokum spurðum við Loga hvernig honum litist á það að gera ætti heimildarmynd um æskuvin hans og liðsfélaga, Örlyg Sturluson sem lést aðeins 18 ára að aldri. „Það er mjög ánægjulegt að það sé verið að gera heimildarmynd um Ölla og hafa framleiðendurnir sett sig í samband við mig. Ég mun auðvitað aðstoða þá eins mikið og ég get ef þeir þurfa upplýsingar og viðtöl,“ sagði Logi að lokum.