Ljóst hvaða liðum Keflvíkingar mæta á EM í Futsal
Dregið hefur verið í riðla í Futsal-bikar UEFA (UEFA Futsal Cup), sem er Evrópukeppni félagsliða í innanhússknattspyrnu og eru Keflvíkingar, ríkjandi Íslandsmeistarar í Futsal, gestgjafar í G-riðli forkeppninnar.
Riðillinn er fjögurra liða og fer fram á tímabilinu 14. til 22. ágúst. Liðin í riðlinum koma úr fjórum styrkleikaflokkum.
Úr fyrsta styrkleikaflokki kemur hollenska liðið Club Futsal Eindhoven, úr öðrum flokki kemur Vimmerby IF frá Svíþjóð og úr þeim þriðja er Kremlin Bicetre United frá Frakklandi. Keflavík er í fjórða og lægsta styrkleikaflokki.
Þetta er í fyrsta sinn sem riðill í Futsal-bikar UEFA fer fram hér á landi og verður spennandi að sjá hvernig Keflvíkingum farnast á heimavelli.
Frá þessu greinir Fotbolti.net