Ljónynjurnar jöfnuðu einvígið
Collier ekki meira með vegna meiðsla
Annar leikurinn í einvígi Keflavíkur og Njarðvíkur í undanúrslitum Subway-deildar kvenna í körfuknattleik fór fram á heimavelli Njarðvíkinga í gær. Keflavík vann fyrsta leik liðanna og leiddi einvígið en Njarðvíkingar höfðu betur í jöfnum og spennandi leik og unnu að lokum með fjórum stigum, 89:85. Staðan er því 1:1 í einvíginu þar sem fyrra liðið til að vinna þrjá leiki fer í úrslitaleikinn.
Slæmar fréttir bárust úr herbúðum Njarðvíkiga fyrir leik en þeirra besti leikmaður, Aliyah Colier, verður ekki meira með á tímabilinu eftir að hafa orðið fyrir meiðslum í fyrri leik liðanna. Gríðarleg blóðtaka fyrir Ljónynjurnar en þær stigu upp og sýndu úr hverju þær eru gerðar með frábærum leik og sigri á deildarmeisturunum.
Erna Hákonardóttir skoraði fimm fyrstu stigin og kom Njarðvík í forystu en fyrsti leikhluti var mjög jafn. Njarðvík leiddi með tveimur stigum fyrir annan leikhluta (20:18) og bætti við einu stigi við forskotið áður en blásið var til hálfleiks (38:35).
Keflvíkingar sem byrjuðu seinni hálfleik með látum og þær Agnes María Svansdóttir og Daniela Wallen settu niður átta stig hvor, þar af tvo þrista hvor, á fyrstu þremur mínútunum. Á sama tíma gerði Isabella Ósk Sigurðar fjögur stig fyrir Njarðvík sem var skyndilega komið níu stigum undir (42:51).
Njarðvíkingar svöruðu áhlaupi gestanna af hörku og settu niður tíu stig í röð til að komast yfir á nýjan leik (52:51). Anna Ingunn Svansdóttir setti þá niður þrist ((52:54) en áfram hélt Njarðvík að raða niður stigum og náði að vera komið með sex stiga forystu undir lok þriðja leikhluta (63:57) en Ólöf Rún Óladóttir minnkaði muninn í fjögur stig áður en honum lauk (63:59).
Njarðvíkingar héldu undirtökunum í fjórða leikhluta og náðu mest að leiða með ellefu stigum (83:72) en þá gerðu Keflvíkingar öfluga atlögu Njarðvík og minnkuðu muninn í eitt stig (83:82) og rúm mínúta til leiksloka.
Atlaga gestanna náði ekki lengra og heimakonur juku muninn á ný og unnu að lokum sterkan sigur á deildarmeisturunum.
Njarðvík - Keflavík 89:85
(20:18, 18:17, 25:24, 26:26)
Njarðvík: Raquel De Lima Viegas Laneiro 21/7 fráköst/11 stoðsendingar, Isabella Ósk Sigurðardóttir 20/12 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 15/6 fráköst, Lavinia Joao Gomes Da Silva 15/9 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 10, Erna Hákonardóttir 8, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Rannveig Guðmundsdóttir 0, Eva María Lúðvíksdóttir 0, Dzana Crnac 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.
Keflavík: Daniela Wallen Morillo 32/16 fráköst, Agnes María Svansdóttir 14/4 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 11, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 9, Birna Valgerður Benónýsdóttir 9/4 fráköst, Karina Denislavova Konstantinova 8/4 fráköst/7 stoðsendingar, Ólöf Rún Óladóttir 2, Anna Lára Vignisdóttir 0, Gígja Guðjónsdóttir 0, Hjördís Lilja Traustadóttir 0, Eygló Kristín Óskarsdóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0.