Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ljónynjurnar jöfnuðu einvígið
Raquel Laneiro leiddi Njarðvíkinga til sigurs með 21 stig, sjö fráköst og ellefu stoðsendingar. Myndir úr fyrri leik liðanna/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 7. apríl 2023 kl. 10:07

Ljónynjurnar jöfnuðu einvígið

Collier ekki meira með vegna meiðsla

Annar leikurinn í einvígi Keflavíkur og Njarðvíkur í undanúrslitum Subway-deildar kvenna í körfuknattleik fór fram á heimavelli Njarðvíkinga í gær. Keflavík vann fyrsta leik liðanna og leiddi einvígið en Njarðvíkingar höfðu betur í jöfnum og spennandi leik og unnu að lokum með fjórum stigum, 89:85. Staðan er því 1:1 í einvíginu þar sem fyrra liðið til að vinna þrjá leiki fer í úrslitaleikinn.
Aliyah Collier borin af velli á mánudag og ljóst er að meiðsli hennar eru of alvarleg til að hún verði meira með í vetur.

Slæmar fréttir bárust úr herbúðum Njarðvíkiga fyrir leik en þeirra besti leikmaður, Aliyah Colier, verður ekki meira með á tímabilinu eftir að hafa orðið fyrir meiðslum í fyrri leik liðanna. Gríðarleg blóðtaka fyrir Ljónynjurnar en þær stigu upp og sýndu úr hverju þær eru gerðar með frábærum leik og sigri á deildarmeisturunum.

Erna Hákonardóttir skoraði fimm fyrstu stigin og kom Njarðvík í forystu en fyrsti leikhluti var mjög jafn. Njarðvík leiddi með tveimur stigum fyrir annan leikhluta (20:18) og bætti við einu stigi við forskotið áður en blásið var til hálfleiks (38:35).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Daniela Wallen bar af í liði Keflavíkur með 32 stig en næst henni kom Agnes María með fjórtán.

Keflvíkingar sem byrjuðu seinni hálfleik með látum og þær Agnes María Svansdóttir og Daniela Wallen settu niður átta stig hvor, þar af tvo þrista hvor, á fyrstu þremur mínútunum. Á sama tíma gerði Isabella Ósk Sigurðar fjögur stig fyrir Njarðvík sem var skyndilega komið níu stigum undir (42:51).

Njarðvíkingar svöruðu áhlaupi gestanna af hörku og settu niður tíu stig í röð til að komast yfir á nýjan leik (52:51). Anna Ingunn Svansdóttir setti þá niður þrist ((52:54) en áfram hélt Njarðvík að raða niður stigum og náði að vera komið með sex stiga forystu undir lok þriðja leikhluta (63:57) en Ólöf Rún Óladóttir minnkaði muninn í fjögur stig áður en honum lauk (63:59).

Isabella Ósk var frábær í liði Njarðvíkur með tuttugu stig, tólf fráköst og 34 framlagspunkta.

Njarðvíkingar héldu undirtökunum í fjórða leikhluta og náðu mest að leiða með ellefu stigum (83:72) en þá gerðu Keflvíkingar öfluga atlögu Njarðvík og minnkuðu muninn í eitt stig (83:82) og rúm mínúta til leiksloka.

Atlaga gestanna náði ekki lengra og heimakonur juku muninn á ný og unnu að lokum sterkan sigur á deildarmeisturunum.

Njarðvík - Keflavík 89:85

(20:18, 18:17, 25:24, 26:26)

Njarðvík: Raquel De Lima Viegas Laneiro 21/7 fráköst/11 stoðsendingar, Isabella Ósk Sigurðardóttir 20/12 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 15/6 fráköst, Lavinia Joao Gomes Da Silva 15/9 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 10, Erna Hákonardóttir 8, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Rannveig Guðmundsdóttir 0, Eva María Lúðvíksdóttir 0, Dzana Crnac 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.
Keflavík: Daniela Wallen Morillo 32/16 fráköst, Agnes María Svansdóttir 14/4 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 11, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 9, Birna Valgerður Benónýsdóttir 9/4 fráköst, Karina Denislavova Konstantinova 8/4 fráköst/7 stoðsendingar, Ólöf Rún Óladóttir 2, Anna Lára Vignisdóttir 0, Gígja Guðjónsdóttir 0, Hjördís Lilja Traustadóttir 0, Eygló Kristín Óskarsdóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0.