Ljónin fá sér Kana
Körfuknattleiksliðið Ljónin úr Njarðvík hefur fengið til liðs við sig tvo Kana til að leika í 16-liða úrslitum Bikarkeppni KKÍ á sunnudag. Annar þeirra er Anthony Q. Jones, sem átti margan stórleikinn fyrir Grindavík í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð.
Hinn leikmaðurinn er Steve Smith, alnafni NBA hetjunnar, en hann er 2 metra hár strákur sem Ljónin vona að eigi eftir að hjálpa þeim í baráttunni undir körfunum.
Leikmennirnir eru gagngert fengnir í þennan eina leik en Jón Júlíus Árnason, þjálfari Ljónanna segir ekki loku fyrir það skotið að leikmennirnir verði kallaðir aftur til leiks ef allt fer að óskum gegn Skallagrími. „Þeir eru til í að koma til að rokka þetta aðeins upp með okkur og það er aldrei að vita nema við köllum aftur í þá ef við komumst í 8-liða úrslitin.“
Jón segir kostnaðinn við þeta ævintýri ekki vera ýkja mikinn. „Þetta er bara flugfarið og svo einhver pappírsvinna sem kostar líka eitthvað. Við eigum hins vegar góða stuðningsmenn sem styðja við bakið á okkur. Svo vonumst við til að fylla Ljónagryfjuna á sunnudaginn og komast í draumaúrslitaleikinn Njarðvík-Ljónin!“
Kapparnir eru væntanlegir á morgun eða föstudag og verður þá væntanlega búið að ganga frá öllum þeirra málum.