Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Lífleg starfsemi HFR
Fimmtudagur 31. janúar 2008 kl. 10:59

Lífleg starfsemi HFR

Starfið hjá Hnefaleikafélagi Reykjaness er nú í fullum gangi og margir iðkendur félagsins búa sig nú undir Íslandsmótið í hnefaleikum sem fram fer síðla marsmánaðar. Guðjón Vilhelm forsvarsmaður HFR sagði í samtali við Víkurfréttir að fjöldi efnilegra hnefaleikamanna væri á hraðri uppleið í félaginu og að mörg skemmtileg námskeið hefðu nú bæst í æfingatöflu HFR.

 

,,Daði Ástþórsson hefur tekið við þjálfun byrjenda- og keppnishópa HFR en Daði hefur boxað með og fyrir okkur síðan 2000 en hann er mjög öflugur þjálfari. Þá er einnig á dagskrá að setja á laggirnar Íslandsmót fyrir unglinga í vor svo það er nóg að gera hjá öllum okkar iðkendum,” sagði Guðjón.

 

Síðustu ár hefur HFR vakið mikla athygli með heimsóknum erlendra hnefaleikafélaga og þá hafa meðlimir HFR einnig keppt erlendis. ,,Þessar heimsóknir og utanlandsferðir okkar eru jafnan hápunkturinn ár hvert í okkar starfi og nú síðar á þessu ári er stefnt að því að halda í keppnisferð erlendis,” sagði Guðjón og bætti við að nú væri afreksstefna HFR komin í fullan gang. ,,Hnefaleikamaður Reykjanesbæjar 2007 var hinn 12 ára gamli Andri Elvarsson en hann er mikið efni og vert að fylgjast með honum á næstunni. Þá eru fleiri efnilegir hnefaleikamenn í okkar röðum,” sagði Guðjón.

 

Á meðal þess sem finna má í starfi HFR eru morguntímar alla virka daga kl. 06:00 fyrir 30 ára og eldri undir handleiðslu Guðjóns og þá er Ágúst Dearborn tekinn við unglingahópum HFR sem og kvennahópnum en að sögn Guðjóns er mikil gróska í kvennaboxinu sem og öllu starfi deildarinnar og margir skemmtilegir viðburðir framundan. Hægt er að skoða nánar um starfsemi deildarinnar á www.boxing.is

 

VF-Mynd/ [email protected] - Mynd frá æfingu HFR.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024